23.07.1913
Neðri deild: 17. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í C-deild Alþingistíðinda. (296)

52. mál, sala á þjóðjörðinni Reykjum í Hrútafirði

Flutningsm. (Tryggvi Bjarnason):

Þetta mál mun hafa gengið greiðlega í gegn um háttv. Ed. og vona eg, að svo verði einnig hér. Ástæðan til þess, að þetta mál kemur fram sem frv. hér á Alþingi, er sú, að fyrir nokkrum árum var löggilt höfn á, þessum stað, er hér ræðir um. Ábúandi bað um kaup á jörðunni og er kaupbeiðnin dagsett í Febrúar 1912. Sýslunefndin, sem hafði þetta mál til umsagnar, áleit ekkert athugavert við það, að jörðin yrði seld, en áleit þó rétt að undanskilja kaupunum dálítið svæði, ofanvert við Reykjalaugu, eins og kaupbeiðandi gerir ráð fyrir í beiðni sinni, ef svo ólíklega kynni að ske, að verzlun myndaðist þar. En til þess eru lítil eða engin líkindi nú. Það gat fremur hugsast áður, vegna þess, að allstórt svæði þurfti að sækja til Borðeyrar bæði úr Dölum og Húnavatnssýlu. Var það talsverðum erviðleikum bundið fyrir menn úr allmiklum hluta þess verzlunarsvæðis, sem sótti þá til Borðeyrar, það er austan Hrútafjarðar, að verða að fara yfir fjörðinn, og því var á þinginu 1893 flutt frumv. um, að Reykjatangi, sem liggur austan Hrútafjarðar, skyldi verða löggilt höfn.

En tveim árum síðar 1895 var löggilt höfn á Hvammstanga og 1897 í Búðardal. Síðan hefir engum dottið í hug, að verzlun risi nokkurn tíma upp á Reykjatanga. En stjórnin leit svo á, að ekki væri heimilt án sérstakra laga að selja þessa jörð vegna ákvæða 2. gr. laga um sölu þjóðjarða, en hins vegar hefir háttv. umboðsmaður ráðh. (Kl. J.) lýst yfir því í háttv. Ed., að stjórnin sjái í sjálfu sér ekkert á móti því að jörðin verði seld.

Eg vænti því, að háttv. Nd. taki vel í frumvarpið og það nái fram að ganga. Nefnd álít eg óþarfa. Öll Skjöl hér að lútandi liggja frammi á lestrarsalnum, og geta háttv. þingmenn kynt sér málið af þeim.