25.07.1913
Neðri deild: 19. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 385 í C-deild Alþingistíðinda. (317)

15. mál, laun íslenskra embættismanna

Einar Jónsson:

Eg stend að eins upp til þess að stinga upp á því, að umræðurnar um þetta mál verði sem styztar: Það var fyrirsjáanlegt strax, og allir voru samdóma um það, að öll þessi launahækkunarfrumvörp ættu að steindrepast; það var að eins af kurteisi við stjórnina, að þeim var vísað til nefndar. Það er því gagnslaust að vera að eyða tíma og peningum í umræður; það má vera nóg, að þessir embættismenn fái nei, þótt ekki séu þeir krufðir til mergjar með gerðir sínar og kröfur. Ef í hita slægi, kynnu ef til vill einhver ófögur orð að hrjóta, sem ekki væri viðurkvæmilegt, þar sem enginn þessara manna er viðstaddur til að bera hönd fyrir höfuð sér, nema landritari einn. Alt skraf um þetta er þýðingarlaust, því að eg skil ekki, að menn hafi látið svo hræra í sér, að þeir ljái frumv. atkvæði, þeir sem í þingbyrjun voru ráðnir í að stytta þeim aldur.