25.07.1913
Neðri deild: 19. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 389 í C-deild Alþingistíðinda. (319)

15. mál, laun íslenskra embættismanna

Kristinn Daníelsson:

Eg stend að eina upp til þess að gera stutta grein fyrir atkvæði mínu. Eg býst við, að það falli svo, að menn kynnu af því að ráða, að eg hafi aðrar skoðanir um þetta mál heldur en eg hefi í raun og veru. Mér skilst, sem aðalástæða nefndarinnar fyrir því að leggja á móti þessu frumv. sé sá, að bezt fari á því, að öll launalöggjöfin sé endurskoðuð í einu, jafnframt því að eftirlaunin séu afnumin.

Þótt það sé sennilega vilji manna alment, að eftirlaun séu afnumin, og oft hafi um það heyrst háværar kröfur, þá getur þó orðið talsverður dráttur á því. Eg veit ekki betur en að 4. gr. stjórnarskrárinnar, um eftirlaun embættismanna, sé, eins og 2. gr., um eftirlaun ráðherra, skilin svo, að stjórnarskrárbreyting þurfi til þess að breyta eða afnema eftirlaunin.

Ekki er það skoðun mín, að á meðan sé rétt að halda í svelti mönnum, sem allir játa að vanlaunað sé, eða stuðla að því, að nýtir menn missist frá störfum sínum, vegna þess að þeir eiga örðugt með að draga fram lífið með þeim kjörum, sem þeir eiga nú við að búa. Það er nú ef til vill ekki hætta á því, vegna þess að þeir munu ekki hafa í önnur hús að venda, og betra að veifa röngu tré en öngu.

En þegar eg kem að þessu frumvarpi, þá finst mér nauðsynin misjöfn á því að breyta launakjörum þeirra manna, sem þar eru tilnefndir. Þetta játar líka háttv. nefnd. Í nefndarálitinu stendur, að ástæða sé til að bæta kjör aumra þeirra embættismanna, sem getur í frumv., og þá með persónulegri launaviðbót í fjárlögunum. Raunar hefði átt betur við, að nefndin hefði sjálf komið með beinar tillögur í þá átt, en það hefir hún ekki gert.

Eg get verið háttv. nefnd samdóma í því, að ekki sé rétt að stofna nú ný eftirlaunaembætti, að minsta kosti rétt, að láta þau bíða þangað til séð verður hvernig fer um eftirlaunalöggjöfina, hvort eftirlaun embættismanna verða afnumin eða ekki.

Þá er eg líka samdóma háttv. nefnd í því, að þetta frumv. hafi að ýmsu leyti verið ónærgætnislega eða illa undirbúið. Og þótt mikil sanngirni mæli með því að bæta kjör sumra þeirra manna, sem farið er fram á í frumv., þá býst eg ekki við að geta greitt frumv. í heild sinni atkvæði mitt. Eg er mótfallinn sumu af efnisástæðum, og sumu af beinlínis formlegum ástæðum. T. d. þykir mér það ekki rétt að samþykkja stighækkun í launum einstakra embættismanna fyr en sama reglan er látin gilda um alla. Heldur ekki býst eg við að mitt atkvæði mundi bjarga málinu. Af sömu ástæðu get eg ekki greitt atkvæði með breyt. till. minnihlutans, þó að þær láti ekki illa í augum. En verði komið með tillögur í þá átt, að bæta kjör einstakra embættismanna, sem, allir verða að játa að sé vanlaunað, með persónulegri launauppbót á fjár lögunum, þá mun eg verða því fylgjandi.