25.07.1913
Neðri deild: 19. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 394 í C-deild Alþingistíðinda. (321)

16. mál, stjórn landsbókasafns

Frams.m. (Sigurður Sigurðsson):

Um þetta frv. hefi eg lítið að segja. Get eg látið mér nægja að vísa til nefndarálitsins og inna almennu athugasemda minna við frumvarpið sáluga, sem fyrst var á dagskrá. Þó vil eg nota tækifærið til að geta þess, að nefndin álítur það rétta stefnu hjá stjórninni, að setja byrjunarlaunin lægri í fyrstu og láta þau fara hækkandi. Vonar nefndin að þeirri reglu verði fylgt þegar stjórnin leggur næst fyrir Alþingi frumv. um breytingu á launalöggjöfinni. Það er margt, er mælir með því og gerir það sanngjart að launin fari hækkandi með aldrinum.

Sé eg svo ekki ástæðu til að fara frekari orðum um þetta frv. — Vona að afdrif þess verði söm og ins fyrra.