25.07.1913
Neðri deild: 19. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 396 í C-deild Alþingistíðinda. (324)

20. mál, verkfræðingur landsins

Frams.m. (Sigurður Sigurðsson):

Þetta frv. um verkfræðing landsins fer fram á það að eins, að gera verkfræðingsstöðuna að konunglegu embætti með eftirlaunarétti. Nefndin var á þeirri skoðun, að ekki gæti komið til mála að aðhyllast þetta frumv., og það af þeim ástæðum, sem teknar eru fram í nefndarálitinu. Nú er krafa þjóðarinnar sú, að minka beri eftirlaunin, eða að minsta kosti að koma þeim í annað horf en nú er. Hún er því á móti þeirri stefnu að bæta við nýjum konunglegum embættum með eftirlaunarétti.

Eg hefi svo ekki meira að segja um frumvarpið; eg býst við að það fari sömu leiðina og hin frumvörpin. Eg geri ráð fyrir að einn háttv. nefndarmaður, sem skrifað hefir undir nefndarálitið með fyrirvara, geri grein fyrir sinni skoðun á málinu, ef hún er frábrugðin skoðun meiri hlutans.