25.07.1913
Neðri deild: 19. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 398 í C-deild Alþingistíðinda. (328)

79. mál, umboð þjóðjarða

Flutningsm. (Ólafur Briem):

Þetta frumv. fer að nokkru leyti í öfuga átt við ýmis frumvarp, sem oft eru á gangi hér í þinginu, að því leyti sem það miðar til að fækka launuðum starfsmönnum og þar með apara útgjöldin. Það er kunnugt, að meiri hluti þjóðjarða í landinu liggur undir umsjón umboðsmanna, sem hafa 1/6 part afgjaldsins í umboðslaun. Sú upphæð nemur samkvæmt landsreikningnum fyrir árið 1911 4300 kr. En sparnaðurinn, sem af því verður ef hreppstjórum er falin innheimtan með 6% innheimtulaunum, eins og hér er gert ráð fyrir, nemur 2752 krónum. Þessi upphæð er að vísu ekki ekki mjög mikil, en munar þó landssjóðinn dálitlu, af því að það er þó óþörf eyðsla.

Á fyrsta þinginu 1845 kom fram uppástunga frá þingmanni Skaftfellinga um að taka innheimtuna af umboðsmönnum og láta sýslumenn hafa hana á hendi, og var ætlast til að sýslumenn hefðu enga sérstaka þóknun fyrir það starf. En þessi uppástunga náði ekki fram að ganga. Næst Var málinu hreyft á þingi 1877 af þingm. Skaftfellinga, en komst þá ekki lengra áleiðis. Og enn kom málið fyrir þingið 1879. Var þá skipuð nefnd til að athuga bygging og ábúð jarða, og varð niðurstaða hennar sú, að umboð þjóðjarða skyldi falið sýslumönnum með 2% innheimtulaunum. Loks kom fram frumv. á þingi 1.901 frá þáverandi 2. þingm. G.-K. og núverandi 1. þm. Eyf., um að fela sýslumönnum umboð þjóðjarða með 4% af afgjaldinu í innheimtulaun. Skyldu þeir njóta aðstoðar hreppstjóra um bygging jarðanna., en þeir hafa 2% af jafnaðargjöldunum í ómakslaun.

Í öllum þessum uppástungum hefir það aðallega vakað fyrir mönnum, að spara kostnaðinn. En hér er það aukaatriði. Aðalatriðið í frumvarpinu er að koma hagkvæmara skipulagi á umboð þjóðjarða. Fyrirkomulagið nú er sérstaklega óhentugt, af því að þjóðjörðum hefir fækkað mjög fyrir sölu á seinni árum og þær hafa því orðið strjálli. Við það hefir fyrirhöfn umboðsmanna aukist. Þeir hafa þurft að hafa eftirlit með fjarliggjandi jörðum, og getur verið að eftirlitið hafi orðið lakara fyrir það. Hér er farið fram á að hreppstjórum sé falið eftirlitið, og ætti það að koma tiltölulega hægt niður á þeim, þar sem hver hreppstjóri hefði að eins sinn eigin hrepp til eftirlits og þyrfti því sjaldan að takast á hendur ferðir til að skoða jarðirnar.

Þetta fyrirkomulag, sem hér er farið fram á, er sniðið eftir því skipulagi, sem komið er á fyrir nokkurum árum viðvíkjandi umsjón á kirkjueignum samkvæmt lögum 16. Nóv. 1907. Þar eru það hreppstjórar, sem hafa eftirlitið. Reynslan hefir sýnt, að það fyrirkomulag er heppilegt, og virðist mér vera rétt, að láta sömu reglu gilda um allar opinberar jarðeignir, hvort sem jarðirnar eru kallaðar þjóðjarðir eða kirkjujarðir.

Þó að þetta sé ekki neitt stórmál, býst eg við að réttara þyki að setja nefnd í það, og leyfi eg mér að gera það að tillögu minni, að kosin verði 5 manna nefnd að þessari umræðu lokinni.