28.07.1913
Neðri deild: 20. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 443 í C-deild Alþingistíðinda. (344)

42. mál, stofnun landhelgissjóðs Íslands

Ráðherrann (H. H.):

Það er eitt atriði, sem háttv. 1. þm. Rvk (L. H. B ) er altaf að endurtaka, nefnilega það, að staðfesting hefði verið auðfengin ef eg hefði sagt konungi, að leyfið skyldi alls ekki verða notað og lögin ekki framkvæmd. Og ekki veit eg, hvaðan honum kemur sú vitneskja, að eg hefði komist hænufeti lengra, þótt eg hefði beitt slíkum klókindum. Sömu ástæðurnar hefðu verið á móti frv., þótt eg fyrir mitt leyti hefði viljað gefa einhver loforð um að lögin yrðu ekki notuð. Hvernig hefði eg átt að ábyrgjast slíkt? Hvernig átti eg að verja slik undirmál? Hverja heimild hafði eg til þess að leika svo? Hver var meining Alþingis með lögunum önnur en sú, að þau yrðu framkvæmd, ef þau yrðu staðfest? Hvert gagn hefði landssjóðurinn haft af lotteríinu, ef það hefði aldrei komist í framkvæmd? Hvað varð þá um öll hundrað þúsundin, sem háttv. fyrirspyrjandi (L. H. B.) segir, að eg hafi kastað á glæ? Nei, slíkt yfirskot hefði engum að liði komi. Eg veit að lögunum hefði jafnt verið synjað staðfestingar fyrir því, þótt eg hefði borið þau upp með slíkum brellu-tilboðum, en háttv. 1. þm. Rvk. (L. H. B.) Veit ekki neitt um það sem hann er að fullyrða um og getu ekkert um það dæmt. Eg hefi aftur á móti persónulega vitneskju um það, hvernig á stóð, og eg er sannfærður um, að ið eina rétta var það sem eg gerði, að fresta málinu og sjá, hvort ekki gæfist tækifæri til að fá því framgengt seinna. Að það mistækist, gat hvorki eg né annar séð fyrirfram.

Háttv. 1. þm. Rvk. (L. H. B.) heldur því fram, að hér sé nauðsynlegt að “statuera exemplum„, annars geti ráðherra einn ráðið því, hvernig eigi að fara með málin og uppburð þeirra. En mér er spurn: Hverjir aðrir eiga að taka ákvörðun um það, hvað gera beri í einstöku tilfelli eins og þessu ? Hverir hafa tækifæri til þess? Undir hvers: dóm átti eg að skjóta þeirri spurningu, hvort eg ætti að fresta málinu eða ekki, þegar sú spurning lá fyrir og krafðist svara? Átti eg kannske að telegraphera til háttv. 1. þm. Rvk (L. H. B.) og spyrja hann til ráða? Eg efast ekki um, að svarið hefði verið velviljað og vísdómsfult. En samt efast eg um, að eg hefði verið nokkru nær um það, hvað rétt væri og forsvaranlegt. Það liggur í hlutarins eðli, að ráðherra verður einn að afráða um það, hvernig á að fara með málin og uppburð þeirra í gefnu tilfelli. Svo getur þingið komið eftir á og dæmt um, hvort hann hefir gert rétt eða rangt. Og eg á eftir að heyra réttar forsendur fyrir þeim dómi, að eg hafi gert rangt, þó að síðar hafi komið fram nýjar ástæður, sem gerðu framgang málsins ómögulegan, og þótt þær málaleitanir, er fóru fram í sambandsmálinu, hefði ekki fyllilega þann árangur, sem meiri hluti þingsins hafði óskað eftir. Eg gat ekki miðað við annað en kringumstæðurnar eins og þær voru þá, þegar eg varð að taka ákvörðunina. Eg vissi ekki óorðna hluti. Spurningin er að eins þessi: var það rétt, eftir því sem á stóð, að setja lotterífrumvarpið á odd þá, þegar ríkisráðsfundurinn 22. Október kallaði að, eða var hitt forsvaranlegt, að bíða átekta. Eg varð að álíta, að með því að bera málið þá upp, væri það alveg úr sögunni. Aftur á móti gat eg ekki vitað nema málinu kynni að fást framgengt seinna, ef eg frestaði uppburði þess að sinni. Það hefir margt breyst á skömmum tíma. Það var t.d. ekki útilokað að ný stjórn kæmist til valda í vor, sem kynni að verða liðlegri í samningum um þetta mál. Um það var ekkert hægt að fortaka. Enda kom það á daginn, að stjórnarskifti urðu, en þá voru in nýju lög Dana frá 1. Apríl í gildi gengin.

Eg vil svo loks reka til baka þau ummæli háttv. 1. þm. Rvk (L. H. B.) um að leyfisbeiðendurnir hafi komið til mín í fyrra og spurt mig, hvort nokkuð myndi þessu máli til fyrirstöðu í Danmörku. Þetta er hreinn tilbúningur. Þeir hafa aldrei beint til mín neinni slíkri spurningu. Eg hefi aldrei átt tal við herra landshöfðingja M. Stephensen um þetta mál og aldrei talað um það við hr. Philipsen hér á landi. Hinn eini af leyfisbeiðendunum, sem minst hefir á þetta mál við mig hér á landi, er herra bankastjóri Sighvatur Bjarnason. Hann mintist eitthvað á þetta mál við míg niðri í Íslandabanka, en alls ekki til þess að segja um það, hvernig Danir mundu líta á málið, heldur var það að eins kunningjasamtal við mig um það, hvernig mér litist á fyrirtækið eða hvort eg mundi vera málinu meðmæltur eða ekki. Þessar sögur, sem háttv. 1. þm. Rvk (L. H. B ) er að dylgja með eða sjá um sig með, eiga sér því engan stað.

Eg bygði það á staðhæfingu þessa háttv. þm. sjálfs í fyrra, sem kvaðst hafa kynt sér málið svo vel og rækilega, að búið væri að ganga úr skugga um, að dönsk stjórnarvöld hefðu ekkert á móti því að lotteríið yrði rekið á þann hátt, sem frumvarpið greindi. Satt að segja finst mér það því koma úr hörðustu átt, þegar þessi sami maður, sem eg treysti í þessu efni, og hefði átt að mega treysta sem flutningamanni og framsögumanni eftir ýtarlega nefndaríhugun, er að bregða mér um það og brigzla mér fyrir, að eg hafi sagt það sem hann staðhæfði.