28.07.1913
Neðri deild: 20. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 448 í C-deild Alþingistíðinda. (346)

42. mál, stofnun landhelgissjóðs Íslands

Kristján Jónsson:

Þar sem eg, eins og kunnugt er, stend fyrir utan flokkana, hefi eg engan þátt átt í afskiftum þeirra af þessu máli hingað til, en nú þykir mér rétt að láta í ljósi álit mitt um og lýsa afstöðu minni til fyrirspurnar þessarar, og þeirrar rökstuddu dagskrár, sem komin er fram hér í deildinni. Það er um það spurt, hvernig á því standi, að lotterílögin hafi ekki verið staðfest af konungi. Mér finst satt að segja fyrirspurn þessi nokkuð undarleg, bæði vegna þess að mönnum var þegar fyrir þing kunnugt um afdrif lotterímálsins og hvernig á þeim stóð og líka Vegna hins, að hæstv. ráðherra hafði þegar í þingbyrjun lýst yfir því, að hann mundi gefa þinginu skýrslu um lotterímálið í sameinuðu þingi við fyrsta tækifæri. Þá skýrslu hefir hann nú gefið, og höfðu allir þm. kost á að vera þar viðstaddir og hlýða á hana. — Öllum athugulunum mönnum hlaut að vera orðið það kunnugt, sem um er spurt.

Hver er þá kjarninn í málinu? Hann er sá, að Alþingi hefir sþ. lög, sem ekki gátu orðið staðfest eða framkvæmd Vegna þess, að talið er að þau komi í bága við lög og hagsmuni annarar þjóðar. Þetta er sannleikurinn. Og það er ekki ástæða til þess fyrir Alþingi að kasta ábyrgðinni fyrir lagasmíð þessa, sem á því hvílir, yfir á aðra. Hún hlýtur að lenda á Alþingi sjálfu, sem hefir samþykt lög, sem Danir álíta að komi í bága við dönsk lög og danska hagsmuni. Og þegar valdhafarnir í Danmörku líta svo á og beita því valdi, sem þeir hafa, þá er það vissulega ekki auðvelt fyrir ráðherra að koma málinu fram. Eg er ekki í neinum vafa um það, að honum er ekki gefandi sök á þessu. Það er sama, hvaða mann við hefðum sent út til Danmerkur með lögin, og jafnvel þótt við hefðum sent heila “Deputation„ — það hefði alt farið á einn veg. Það var vikið að því í fyrra af hv. þm. Dal. (B. J.), að lög þessi gætu ekki orðið samþykt vegna þess að þau kæmu í bága við dönsk lög, eða öllu heldur fyrir þá sök, að Alþingi færi út fyrir verkahring sinn og valdsvið, er það samþykti lög um lotterídrátt í Danmörku. Sjálfur bar eg kvíðbeyg fyrir þessu, en eg taldi mig ekki þá hafa rannsakað þessa hlið málsins nægilega ítarlega, og kom því eigi fram með ákveðin mótmæli, er lotterifrumvarpið var fyrir þinginu, enda treysti eg flutningsmönnum frv. til þess að hafa athugað þetta efni sem skyldi. En hina vegar lét eg þessar efasemdir minar í ljósi við nefndina, sem hafði málið til meðferðar, og benti henni á ákvæði, þau sem mér þóttu varhagaverð. Nú er það á daginn komið, að lögin gátu eigi orðið staðfest fyrir galla, sem taldir voru vera á þeim.

Eg hygg nú, að hæstv. ráðherra hafi í þessu máli fullnægt skyldu sinni, eins og af honum mátti heimta, og tel skýrslu hans fullkomlega ábyggilega í þessu atriði. Það hefir verið erfitt fyrir ráðherra að eiga við þetta, þegar það kom á daginn erlendis að lögin fóru í bága við dönsk lög eða danska hagsmuni. Þá hefir vakað fyrir honum sú spurning: Hvað á eg að gera ? Á eg að setja málið á oddinn, sem kallað er? Á eg að fara með málið í ríkisráðið og bera það þar upp, vitandi fyrirfram, að því muni verða synjað staðfestingar? Eg býst við, að eg hefði farið eins að, ef eg hefði verið ráðherra, og kosið að taka ekki á móti synjun konungs í ríkisráðinu. Eða hvað var unnið við að sækja synjunina í ríkisráðið? Eg hygg, eftir atvikum, að ráðh. hafi í þessu erfiða máli ekki gert annað en það, sem eðlilegast og réttast hafi verið. Með öðrum orðum, eg skil ekki, að hægt sé að gera ábyrgð gildandi gagnvart honum í þessu. En það mætti ef til vill segja annað, sem sé að ráðherra hefði á þinginu í fyrra átt að vara Alþingi við að samþykkja þessi lög og benda því á agnúana, sem það hefði í för með sér. En þetta er eigi gert. En hitt er víst, að það er Alþingi, sem ber ábyrgðina fyrir að hafa samþykt lögin.

Nú liggur hér fyrir ályktun í dagskrárformi út af þessu máli, og er mjög óvíst, hvernig atkv. greiðast um hana. En menn verða að gera sér það ljóst, hverjar afleiðingar það getur haft, að samþykkja þessa dagskrá. Þeir sem líta svo á, að ráðherra hafi ekkert afbrotið í þessu máli, greiða sálfsagt atkvæði á móti henni. En þeir þar á móti, sem álfta að hann hafi ekki farið að sem skyldi, verða að spyrja sjálfa sig: Á eg að greiða atkv. með eða móti? Og hver er meiningin með þessari ályktun?. Eg hygg fyrir mitt leyti, að tilgangurinn sé sá, að leitast við að hrinda ráðherra af stóli með samþykt dagakrárinnar. Og held eg eigi að um það þurfi að efast, að til þessa sé stofnað. En hvað tæki þá við ? Hefir nokkur gert sér ljóst, hvernig þá muni standa mál vor, ef þeir, sem bera fram þessa ályktun, fá vilja sínum framgengt? Það er enginn vafi á því, að bak við þessa ályktun standa tvö flokksbrot hér í deildinni, sem hafa runnið saman til þess eins, að bera hana fram, og að þau munu óðara renna sundur aftur, þegar er þessi dagskrá er búin að ná tilgangi sínum — hefir unnið það sem hún á að vinna, því að þessi flokksbrot eiga eigi betur saman en eldur og vatn. Það er því engin von um það, að þessi flokksbrota-sambræðingur geti bygt upp og sett á laggirnar stöðuga stjórn; til þess eru þau of sundurleit. Áður en núverandi ráðherra er hrundið, verður að leysa úr þeirri spurningu, hver taka skuli við ráðherraembættinu; að minsta kosti verður að vera völ á einhverjum manni, er meiri hluti þings geti sameinað sig um. Meðan sú spurning er ekki útkljáð, má segja, að stefnt sé í beina óvissu, og eg vil segja fullkomið myrkur. Eg held að við eigum ekki að tefla á neina óvissu í því efni, heldur vera vissir um, hvað við hreppum, þegar við höfum hrundið núverandi stjórn. Eg fyrir mitt leyti vil ekki hrinda núverandi ráðherra úr sæti, ef eg veit ekki, hver verði ráðherra á eftir honum.

Á hinn bóginn má vel segja, að skilja megi þessa ályktun á annan hátt, en eg hefi bent til nú nýlega, því að hún er svo loðin, að ekkert ákveðið er sagt með henni, en í því liggur einmitt, hve varhugaverð hún er. Skeð getur, og er eigi ótrúlegt, að menn hafi verið fengnir til að lofa þessari rökstuddu dagekrá fylgi sínu með því, að telja þeim trú um að hún væri alveg meinlaus, og væri þá æskilegt að þeir inir sömu vildu láta í ljós skoðun sína í þá átt. Og verði þá dagskráin samþ. hér í deildinni í dag, má óhikað líta svo á, að deildin vilji ekki láta skilja það svo sem kröfu eða bending um, að ráðherra skuli fara frá.