28.07.1913
Neðri deild: 20. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 454 í C-deild Alþingistíðinda. (348)

42. mál, stofnun landhelgissjóðs Íslands

Pétur Jónsson:

Eg tala hér ekki fyrir hönd míns flokks, en þó að eg tali ekki fyrir hönd bændaflokksins á þingi, sem eg er í, þá vona eg að eg tali máli fjölda bænda víðsvegar um land.

Það er upplýst af skýrslu hæstv. ráðherra (H. H.), að ef hann hefði framfylgt lotterímálinu til streitu, þá hefði það spilt fyrir tilraunum hans við Dani viðvíkjandi sambandsmálinu, ef ekki eytt þeim með öllu. Þetta er það helzta, sem eg hefi getað dregið út úr þessum umræðum, og því hefir ekki verið mótmælt. Það sem við því höfum hér helzt að gera, er að dæma um, hvort réttara hefði verið af ráðherra að láta lotterímálið niður falla eða að fyrirgera þeim vonum, er menn höfðu gert hér í sambandsmálinu, sem í raun réttri er mál málanna, falið núverandi ráðherra af meira en 3/4 þingmanna á síðasta þingi. Mér er óhætt að fullyrða, að lotterímálið var alls eigi borið fram á þingi í fyrra með þeirri hugsun, að af því hlytist nokkuð það, að til mála gæti komið að ráðherra yrði hrundið vegna þess, og því síður að það gæti orðið skaðlegt fyrir sambandsmálið. Málið var borið fram og flutt undirhyggjulaust með öllu. Af þessari ástæðu er eg fullviss um það, og eg hygg allir að kalla, sem sambandsmálinu unna, að það var samvizkusamlega gert af hæstv. ráðherra, að láta undan siga í lotterímálinu, heldur en að skaða þær vonir, sem menn gátu gert sért sér í sambandsmálinu. Það er því að minni hyggju ekkert að því að finna, sem hæstv. ráðherra gerði í þessu máli Í fyrra haust. En svo er það, að þótt lotterílögin hefðu hlotið staðfestingu, þá hefðu þau orðið gagnslaus lög fyrir okkur alveg eins fyrir því. Það er augljóst, að úr því að Danir gátu með lögum komið í veg fyrir að við hefðum nokkuð gagn af lotterílögunum, þá hefði leyfið orðið alveg gagnslaust fyrir leyfishafa.

Eg ætla mér svo ekki að fara fleiri orðum um þetta mál, en akal að eins lýsa því yfir að endingu, að eg mun greiða atkvæði. á móti öllum yfirlýsingum út af því.