28.07.1913
Neðri deild: 20. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 479 í C-deild Alþingistíðinda. (360)

3. mál, fjáraukalög 1912 og 1913

Ráðherrann (H. H.):

Viðvíkjandi fjárveitingunni til Courmonts vil eg láta þess getið, að það er misskilningur hjá háttv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.), að líkja þeim styrk við skáldastyrk. Þegar háskóli vor var settur á stofn gerðu Frakkar það kurteisisbragð að bjóðast til að senda þennan mann til að kenna frakknesku við háskólann. Var það boð þegið með þökkum, og þótti bæði til sæmdar og gagna. Þessi maður hefir nú kent hér í 2 ár, og komist svo vel niður í íslenzku, að fádæmum sætir. Þegar fjárlagafrumvarpið var í smíðum í vetur, spurðist franska stjórnin fyrir um það, hvort vér vildum, að hingað væri sendur nýr maður í stað Courmonts, sem nú er kvaddur heim til þess að inna af höndum herþjónuatukvöð. En jafnframt óskaði stjórnin þess, að vér sýndum ofurlitlum vott, að oss væri þægð í sendingu þessa manns, með því að veita svo sem 1000 fr. á ári til hans. Þetta var tekið upp í fjárlagafrumvarpið, en í samræmi við það þótti hlýða að veita sömu upphæð til Courmonts, sem nú er farinn héðan, fyrir vel unnið starf. Það er að vísu engin réttarkrafa. En hins vegar virðist mér það sjálfsögð kurteisi við góðan mann, sem vafalaust mun verða landi voru að gagni í framtíðinni.