29.07.1913
Neðri deild: 21. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 486 í C-deild Alþingistíðinda. (363)

76. mál, landssjóðsábyrgð á sparifé og innlánsfé Landsbankans

Ráðherrann (H. H.):

Eg hefi ekki haft tækifæri til að setja mig inn í þetta mál til hlítar. Eg gat ekki verið við l. umr. þess, og hefi því ekki heyrt inar almennu ástæður, er fyrir því hafa verið færðar. En eg hefi þó athugað það nægilega til þess að skilja aðalatriðin í því, og vil eg segja, að ef þetta frumv. hefði ekki komið frá nefnd, hefði vissulega verið vel til fallið að vísa því til nefndar áður lengra er farið, því það er alveg efalaust, að þetta mál þarfnast enn þá rækilegrar íhugunar áður en það verði að lögum.

Hér er alt annað á seiði en það, sem háttv. seinasti ræðumaður, bankastjórinn (B. Kr). gaf í syn. Hér er að ræða um stórvægilega breyting á fyrirkomulagi bankans og allri afstöðu hans gagnvart viðskiftamönnum og gagnvart landssjóðnum. Væri svo, að landssjóður bæri nú þegar ábyrgð á innlánafé bankans, hvers vegna á þá að búa til þess í lög ? Sé þetta gildandi lög, hvers vegna á þá að endurtaka það ? Nei, hér er að ræða um alveg nýja og nýstárlega samblöndun á landssjóði og bankanum, sem gæti orðið mjög óviðfeldin og varhugaverð. Það væri máske hægi að koma slíkri samsteypu fyrir, svo að viðunandi væri; en þá þarf að breyta öllu fyrirkomulagi bankans einnig að öðru leyti, gera hann að útlánsdeild af landssjóði, og gera eftirlitið af hálfu landssjóðs með útlánum og öðrum fjárráðstöfunum miklu víðtækara en nú er. (Sigurður Sigurðsson: Heyr!). En að landssjóðurinn alveg skilmálalaust ábyrgist allar fjárráðstafanir stofnunar, sem er eins sjálfstæð og sérskilin að stjórn og öllu fyrirkomulagi, eins og landsbankinn er nú, það væri ekki tryggilegt. Landssjóður er þá alveg berskjaldaður ef illa tekst til, eða ef bankanum er illa stjórnað. Meðan alt gengur vel, þá ber ekki á hættunni. En menn vita ekki, hvað fyrir kann að koma.

Ef hallæri kæmi, svo þeir sem fé eiga í bönkunum, þyrftu snögglega til fjár síns að taka, eða ef megnt vantraust kæmi upp á stjórn og starfrækslu bankans, svo að menn yrðu hræddir við að eiga þar fé sitt og heimtuðu það út, þá kæmi að því að landssjóður þyrfti að borga. Bankinn verður altaf að hafa fé til fyrirliggjandi. Eg álít, að ef að þessi lög yrði samþykt, þá Væri allsendis ómögulegt fyrir landsstjórnina að komast hjá því að gera eitt af tvennu: annaðhvort hleypa landinu í skuld til þess að hafa altaf fé fyrirliggjandi, eða heimta blátt áfram af bankanum, að hann hafi alt af fyrirliggjandi nægt fé til að mæta því sem fyrir kynni að koma.

Eg hygg, að það sé nauðsynlegt áður en ráðist er í þetta, sem getur haft mjög viðtækar afleiðingar, þar á meðal ískyggileg áhrif á lánstraust landsins út á við, að málið sé nákvæmlega íhugað og öðruvís undirbúið en hér hefir verið gert. Eg hygg, að það væri réttast, að skipa sérstaka nefnd til að íhuga gagngerða breytingu á öllu fyrirkomulagi Landsbankans, þar sem þetta þá yrði eitt atriðið. En það eru fleiri atriði, sem þá kæmu til íhugunar; t.d. eru seðlar bankana, eins og allir vita, ekki venjulegir bankaseðlar, heldur að eins pappírspeningar, sem ekki eru neins virði í sjálfu sér, heldur fá alt verð sitt af lánstrausti landssjóðs, sem hefir gefið þá út upp á eilífar kringumstæður, og væri ef til vill tími kominn til að breyta þessu. Eg get ekki að svo stöddu, af þessum ástæðum, sem eg tók fram, og mörgum öðrum, verið með málinu eina það liggur fyrir, og vildi eg helzt óska að því yrði frestað. — Eg vil svo ljúka þessum fáu orðum mínum með því að mótmæla þeim ummælum seinasta hv. ræðum. (B. Kr.), sem hann beindi til stjórnarinnar, að hún hefði verið Landsbankanum óvinveitt að einhverju leyti. Eg vísa þessum ummælum til baka sem algerlega ósönnum og óverðskulduðum hvað mig snertir. Eg hefi þvert á móti gert það lítið, sem í mínu valdi hefir staðið, til að styðja bankann og verða við óskum bankastjórnarinnar. Eg hefi meðal annars útvegað honum 1/4 milíón kr. lán með góðum kjörum, og skil eg ekki, að háttv. 1. þm. (G.K. (B. gr.) geti neitað því, að einnig að öðru leyti, t. d. að því er snertir veðdeildarveðið, hafi eg viljað verða við óskum bankastjórnarinnar eftir því sem unt hefir verið. Eg gat því ekki búist við þessum ákúrum úr þeirri átt.