30.07.1913
Neðri deild: 22. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 530 í C-deild Alþingistíðinda. (392)

7. mál, fasteignaskattur

Matthías Ólafsson:

Það er ánægjulegt að heyra, að háttv. minni hluti er að flestu leyti sammála meiri hlutanum. Háttv framsögumaður (Kr. D.) sagði, að minni hlutinn myndi greiða atkvæði með breyt.till. meiri hlutans. En þá nær heldur ekki samþykkið lengra, því að hann leggur til að alls ekki verði fallist á frumvarpið, og ber því helzt við, að skatturinn sé óvinsæll. En hvenær eru skattar ekki óvínsælir? Það er vitanlegt, að allar nýjar skattaálögur eru óvinsælar, en þingið á að hugsa um að álögurnar séu réttmætar og sanngjarnar, en ekki um það, hvort fólkið tekur þeim vel eða illa. Mér virðist því þessi mótbára háttv. minnihluta vera næsta veigalítil eins og allar mótbárur hana eru léttvægar. Það er verið að halda því fram, að skatturinn komi hart niður á einstökum mönnum, en engir skattar koma þó harðara niður á einstökum mönnum heldur en óbeinu skattarnir. Og það verður aldrei hrakið, að beinir skattar eru réttlátari heldur en óbeinir skattar. Beinu skattarnir eru lagðir á eignir manna og miðaðar við verðmæti þeirra, en óbeinu skattana verða menn að borga. hvort sem menn eiga nokkuð eða ekki. Þetta út af fyrir sig er næg ástæða til þess að frumv. gangi fram. Eg efa það reyndar ekki, að skatturinn geti komið hart niður á einstökum ráðlausum mönnum, sem hafa hagað sér óhyggilega, ráðist í fyrirtæki, húsabyggingar eða jarðakaup, sem hafa Verið þeim ofvaxin, og hleypt sér með því í skuldir. En Skatturinn getur þá orðið til þess að kenna mönnum og draga úr slíku vanhyggju-háttalagi, ef menn vita að menn eiga að greiða skatt af eignum sínum, hvort sem skuld hvílir á þeim eða ekki. Og það er engin ástæða til að undanskilja veðskuldir frá skattgreiðslu. Það gæti hugsast að maður léti veðskuld hvíla á eign sinni, að eins til þess að losna við skattinn, og eignin gæti því verið hans sanna eign fyrir því. Auðvitað getur verið að veðsetningin sé rétt og sönn og maðurinn sé í þessari skuld, en það getur líka verið það gagnstæða. Eg vil sérstaklega taka það fram, að með þessu frv. standa eða falla öll skattafrumvörpin. Það er því þetta frv., sem alt veltur á að samþykt verði. Eg veit ekki, hvaðan framsögum. minni hlutans (Kr. D.) kom sá grunur, að frumv. næði ekki fram að ganga. Eg fyrir mitt leyti hefi alt af alið þá von, að frumvarpið gengi fram, og eg vona það ennþá.

Eg sé það, að sá maður í meiri hluta nefndarinnar, sem ákveðnastur var með frumvarpinu, er hér ekki viðstaddur. Hann hefir líklega veikst snögglega, því að hann var hér í morgun, eða að minsta kosti var hatturinn hans hérna frammi í ganginum, en í fundarbyrjun Var hatturinn farinn. (Bjarni Jónsson: Það hefir kannske einhver falið hattinn). Eg vona að hér sé ekki að ræða um samsæri móti frumvarpinu vegna þess, hvaðan það er komið. En það lítur þó nærri því út fyrir, að menn ætli að gera sér það að leik að fella frumvarpið, bara af því að það er komið frá stjórninni. Það er grár leikur, og eg skal ekki trúa því fyrri en eg verð til þess neyddur. Háttv. minni hluti segir í nefndáliti sínu, að þrátt fyrir alla gallana, væri ekki horfandi í að samþykkja frumvarpið, ef það að eins hinsvegar aflaði landssjóði tekna svo um munaði. Aðalgalli frumvarpsins, eða eini galli þess er einmitt sá, að það gerir svo lítið gagn. En nefndin sá sér ekki fært að hafa skattinn hærri, en sú er bót í máli að hann á að vera tilfæranlegur og má hækka hann hvenær sem vill og þörf krefur. Þó að fjárlagafrv. sé ekki komið frá nefndinni enn þá, þá er það nú þegar fyrirsjáanlegt, að ómögulegt er annað en að fjárlögin fari með stórkostlegum tekjuhalla út úr þinginu í þetta skifti. Það er því full þörf á álitlegri fjárupphæð til að jafna þann halla. Auk þess ætti að létta af vörugjaldinu sem fyrst, því að það er sá þyngsti og óréttlátasti skattur, sem lagður hefir verið á þjóðina, og þyrfti þá eitthvað að koma í staðinn.

Eg hefi ekki heyrt eina einustu gilda mótbáru gegn frumvarpinu, frá minni hlutanum, enda hefir háttv. framsögum. meiri hlutans (Ól. Br.) sýnt fram á, að ástæður minni hlutans séu mjög ómerkilegar og lítilfjörlegar.

Eg skal svo ekki fjölyrða um þetta meira að sinni, en leyfi mér að eins að endurtaka þá ósk mína, að þetta frumvarp nái fram að ganga með þeim breytingum, sem nefndin leggur til að á því séu gerðar.