30.07.1913
Neðri deild: 22. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 535 í C-deild Alþingistíðinda. (394)

7. mál, fasteignaskattur

Tryggvi Bjarnason:

Eg hefi ekki að öllu leyti getað fylgst, hvorki með meiri né minni hl. nefndarinnar, en gat ekki verið að akrifa þriðja nefndarálitið, þar sem eg var í flestum atriðum samþykkur minni hl., og skifaði því undir nefndarál. hana með fyrirvara. En eg er honum þó ósamþykkur fyrst og fremst í því, að þessi skattur rýri veðgildi fasteigna. Það gerir hann alls ekki. Í öðru lagi er því haldið fram í nefndaráliti minni hl., að ef auka þyrfti tekjur landssjóða, þá ætti heldur að auka vörutollinn. Þetta get eg ekki felt mig við. Ef það lægi fyrir að afla landssjóði tekna með skattaálögum, þá teldi eg þó réttara að breyta eldri sköttum, eða afnema þá, og setja nýja í staðinn í líkingu við þetta. En hitt er það, að eg get ekki felt mig við þenna skatt, af því, að mér þykir hann koma illa niður.

Það fyrsta, sem hafa verður fyrir augum, er leggja skal á nýjan skatt, er gjaldþolið. Því er nú haldið fram af mörgum, að þetta frv. geri það og háttv. 1. þm. Skagf. (Ól. Br.) sagði að það væri sagt, en ekki sýnt, að svo væri ekki. En það álit eg ekki að það geri. Eg hefi reynt að gera mér nokkra grein fyrir þessu, og akal leyfa mér að taka dæmi, af tveim mönnum, sem hafa svipað handa á milli. Annar á fasteign, sem virt er á 10 þús. kr. og í lausafé 5 þús. kr., og er skuldlaus. Nú á hann að greiða, samkv. þessu frv. í fasteignaskatt 20 kr. og tekjuskatt 1,50 kr., samtals kr. 21,50. Hinn maðurinn á líka 10 þús. kr. fasteign og 5 þús. kr. í lausafé. Á þeirri eign hvíla 10 þús. kr. skuldir. Það mun nú þykja hátt, en þá á hann 5 þús. kr. skuldlaust. Og hann á að borga alveg eina, kr. 21,50. Þessi hlutföll breytast að vísu dálítið, ef mennirnir hafa líka tekjur af atvinnu. Ef hvor um sig hefir í tekjur af eign og atvinnu eftir veglegan frádrátt, að undanskildum vöxtum af skuldum, kr. 2000,00, þá er tekjuakattur af þeirri upphæð 15 kr., og greiðir þá inn fyrri, sem skuldlausa er, 20 kr. í fasteignaskatt og 15 kr. í tekjuskatt, samtals 35 kr., en inn síðari borgar í fasteignaskatt 20 kr. og tekjuakatt af kr. 2000,00 = 600, sem hann greiðir í vexti af 10 þús. kr. skuld. Það er að segja að hann greiðir tekjuskatt af 1400 kr., sem er 9 kr., og greiðir þá samtals 29 kr. í skatt.

Eg sé nú ekki að hér sé lagt á eftir gjaldþoli, þar sem annar maðurinn á 15 þús. kr. skuldlausar, en hinn ekki nema 5, og þó er munurinn ekki nema 6 kr., eða rúmlega 1/7. Hér þarf eitthvað til að jafna, og milliþinganefndin ætlaðist til að eignaskatturinn jafnaði þær misfellur, sem fasteignaskatturinn út af fyrir sig veldur, lagður jafnt á allar fasteignir, hvort á þeim hvílir skuld eða ekki. En það frumv. hefir stjórnin ekki lagt fyrir þingið nú, heldur að eins þessi tvö. Eg hefði heldur komið að öll frumvörpin þrjú hefðu mátt fylgjast að, þó að tekjurnar hefðu ekki orðið hærri en ætlast er til með þessum 2 frumvörpum. Fasteignaskatturinn og eignaskatturinn hefði mátt vera þeim mun lægri, það hefði komið jafnara niður.

Þegar um það er að ræða, hve miklar tekjur þessir skattar mundu gefa af sér, þá hefir stjórnin áætlað það um 56 þús. kr., og mun það láta nærri. En að því er að hyggja, að þar frá dragast innheimtulaun, og starfslaun skattanefndarmanna, sem er óhætt að áætla full 7 þús. kr. og held eg að það sé ekkert of mikið. Eg hygg að starf skattanefnda verði ekki svo lítið, að af því muni veita.

Annað, sem veldur því, að eg get ekki aðhylst frumvarpið, er það, að eg get ekki séð það, að brýn nauðsyn sé á því nú, að hækka skattana eða leggja á nýja. Og ekki er vafi á því, að ekki býst þjóðin við þessum sköttum nú, þar sem vörutollurinn var samþyktur í fyrra. reyndar væri það nú ekki mikil ástæða gegn frv., ef það væri annars gott og nauðsynlegt, en líta má þó á þetta, og víst er um það, að ekki átti þjóðin von á þessum frumvörpum á þing nú. Það barst í tal á þingmálafundi í Húnavatnssýslu, hvort við þingmennirnir vissum nokkuð til þess, að þau væru á leiðinni. Það vissum við ekki, og því voru þau alls ekki rædd. Og jafnframt skal eg geta þess, að þegar þau voru rædd þar 1909 og málið var yfirleitt til umræðu, þá voru að vísu skiftar skoðanir um þau, en yfirleitt held eg að þau hafi þótt fremur óaðgengileg. Það er eins og kunnugt er, að þjóðin kveinkar sér ætíð við nýjum sköttum. og þá einkum beinu sköttunum. En úr því að farið er nú að hugsa um þetta að breyta gömlum föstum sköttum, þá álít eg rétt og sjálfsagt að skjóta þessu máli enn einu sinni til þjóðarinnar og gefa henni kost á að láta uppi álit sitt um það. Eg hefi, eins og háttv. framsögum. minni hl. (Kr. D.) tók fram, fylgst með í störfum nefndarinnar, og mun greiða breyt.till. hennar atkvæði, ef frumvarpið á að ganga í gegn, en álít hins vegar ekki rétt að það gangi fram á þessu þingi. Eg geri því ekki ráð fyrir að greiða atkvæði um 1. gr. þessa frumvarps nú við 2. umr., því að með henni standa og falla öll þessi frumvörp, en það er ekki víst, að eg greiði henni atkvæði út úr deildinni. Eg vil að þessi frv. geti tekið bótum, því að eg geri ráð fyrir að breytt verði fyrirkomulagi inna föstu skatta, áður en langt um líður, og þess vegna er rétt að málin fái nú sem rækilegasta meðferð hér, til undirbúnings fyrir seinni tíma.

Eg hefi reynt að athuga þetta mál hlutdrægnislaust, og vísa því fyrir mitt leyti á bug aðdróttunum háttv. þm. V.Ísf. (M. Ól) um það að hér sé verið að gera samsæri gegn þessum frumvörpum af því einu, að þau eru frá stjórninni. Þær aðdróttanir ná ekki til mín.