30.07.1913
Neðri deild: 22. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 550 í C-deild Alþingistíðinda. (400)

7. mál, fasteignaskattur

Framsögum. meiri hl. (Ólafur Briem):

Eg ætla fyrir nefndarinnar hönd að svara nokkrum athugasemdum, sem gerðar hafa verið við frumvarpið.

Háttv. þm. Dal. (B. J.) bar fram nokkrar spurningar fyrir nefndina. Var fyrsta atriðið, hvort nefndin vildi ekki fella burt siðari málsgrein 1. greinar, sem lýtur að því, að á jörðum, sem eru í leiguábúð, þegar lögin koma til framkvæmda, geti eigandi krafist endurgjalds á nokkrum hluta skattsins af leigjanda., þar til er nýr leigusamningur er gerður. Skal eg taka það fram, að þetta atriði, er alla ekki neitt grundvallaratriði, heldur að eins bráðabirgðarákvæði, sem styðst við það, að nokkrir skattar eiga að falla niður, en fasteignaskatturinn að koma í stað þeirra. Má þar til nefna ábúðarskattinn og lausafjárskattinn, sem báðir eru atvinnuskattar á leiguliða. Nefndin hefir látið þessa grein í stjórnarfrv. halda sér með þeirri einu breytingu, að landeigandi gæti heimtað endurgjald á helmingi skattsins af leiguliða í stað 1/3 hluta. Þetta miðast aðallega við, að þessi nýju lög geri sem minsta röskun á því fyrirkomulagi, sem nú er. Það er vitanlegt, að allar skattabreytingar, hversu réttmætar sem eru, valda nokkru misrétti og ef til vill ójöfnuði í bili, meðan þær eru að komast á. Fyrir því er nauðsynlegt að fara mjög varlega, þegar af numdir eru skattar, sem menn eru orðnir vanir við, en aðrir, sem menn ekki eru vanir, teknir upp í staðinn.

Skattar, sem lagðir eru beint á fasteign, hvíla auðvitað á eigandanum, en þegar eigandaskifti verða, skiftist skattkvöðin milli kaupanda og seljanda. Hver, sem kaupir fasteign með áhvilandi skattkvöð getur því við kaupin tekið tillit til þess, að kvöðin hvílir á eigninni, og haft hliðsjón af þar af leiðandi verðrýrnun eignarinnar við samninginn um kaupverðið. Jafn vel þó þetta sé ekki grundvallaratriði, get eg ekki gengið inn á það með háttv. þm. Dal. (B. J.), að það sé rétt, að leggja bann. við því, að landsdrottinn heimti nokkurn hluta skattsina af leiguliða.

Annað atriðið í ræðu háttv. þm. Dal. (B. J.) Var, að feld yrði úr frumvarpinu 7. gr.: Heimilt er með ákvæði í fjárlögunum að hækka eða lækka fasteignarskatt fyrir eitt fjárhagstímabil í senn.

Þetta er heldur ekkert grundvallaratriði og kemur ekki við því sem er aðalatriðið í þessu frv. Þetta ákvæði er tekið úr enskri löggjöf, og hvort sem það þykir heppilegt eða ekki, þótti nefndinni mikið tillit takandi til fyrirkomulags, sem er ráðandi hjá þeirri þjóð, Sem um langan aldur hefir verið til fyrirmyndar í fjármálum. Það er líka vafasamt, hvort þetta atriði verkar til skaða, hvort það ekki einmitt verður aðhald fyrir þingmenn gagnvart kjósendum, að hækka ekki útgjöldin meira en tekjurnar leyfa. Þetta er einnig samkomulagsatriði, Rem snertir ekki kerfi; það sem skattarnir eru bygðir á. Mætti því breyta þessu ákvæði, ef menn álíta að það væri til spillis, og mun nefndin ekki gera það að kappsmáli.

Það eru fleiri þingmenn, sem hafa tekið í sama strenginn, þar á meðal háttv. 2. þm. S.-MÚl. (G. E.). Lítur út fyrir að fleiri hafi ótrú á þessu.

Viðvíkjandi orðabreytingum, þeim er háttv. þm. Dal. (B. J.) æskti eftir, skal eg geta þess, að nefndin tekur þakklátlega við bendingum um, hvað betur má fara að því er snertir orðfæri, sérstaklega frá svo góðum íslenzkumanni, sem. háttv. þm. Dal.

Út af ræðu háttv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.), þar sem hann ber saman beina og óbeina skatta, skal eg geta þess, að þótt eg fallist á, að beinu skattarnir séu, í eðli sínu réttlátari en hinir, er samt í framkvæmdinni gersamlega ómögulegt að afnema óbeinu skattana með öllu. Annað mál er, að reynt sé að jafna það hlutfall, sem nú er; þar sem beinu skattarnir eru ekki nema 1/10 hluti af tekjum landssjóðs.

Hitt atriðið sem hann talaði um, réttarstöðu presta gagnvart skattinum, hefir háttv. framsögum. minni hl. (gr. D.) einnig minst á. Hann spurði, hvort til þess væri ætlast, að prestar gyldu skatt af fasteignum, þeim sem þeir búa á eða hafa til afnota. Skal eg viðurkenna, að þótt þetta atriði kæmi til orða í nefndinni, þá komst hún ekki að neinni fastri niðurstöðu, og eini lögfræðingurinn í henni, háttv. þm. Vestm. (J. M.) lét ekki í ljós neina skoðun á því.

Viðvíkjandi ummælum háttv. framsögum. minni hl. (Kr. D.) skal eg taka það fram, að eg get ekki betur séð, en að margt af því sem hann sagði, væri skýringar á nefndaráliti minni hlutana. Get eg því slept að fara nákvæmlega út í það. Það er að eins eitt atriði í ræðu hans, sem eg vildi athuga. Það er það sem hann sagði, að nú væri kominn upp mikill áhugi hjá mönnum að kaupa landssjóðsjarðir, og að fasteignaskatturinn kæmi sérstaklega þungt niður á þeim mönnum, er legðu út í að kaupa land.

Eg get ekki Verið sammála háttv. framsögum. minni hl. (Kr. D.) um þetta atriði, því að menn fá þessar jarðir keyptar með slíkum kostakjörum, að þau mega teljast betri en alment gerist í jarðakaupum. Sá sem vill kaupa landssjóðajörð, þarf að eins að borga 1/10 hluta af kaupverði hennar um leið og kaupin, gerast, en afganginn skal hann greiða á: 28 árum með 6% í vexti og afborgun. Að þeim tíma liðnum er jörðin orðin eign hana. Bæði rentur og afborgun af eftirstöðvum jarðarverðsins eru því ekki hærri en almennir bankavextir.

Þá kem eg að ræðu háttv. 2. þm. Húnv. (Tr. B.). Það sem hann aðallega setti fyrir sig, var, að ekki skyldi vera neitt ákvæði um, að sá sem ætti eign sína skuldlausa, skyldi borga meiri skatt en Sá sem ætti skuldum hlaðna fastseign. Eins og áður hefir verið tekið fram, er þetta afleiðing af því, að stjórnin hefir ekki tekið upp frumvarp um eignaskatt af skuldlausri eign, og nefndin hefir ekki séð sér fært að hreyfa við þessu atriði. En í notum þess er í frumvarpinu um tekjuskatt svo fyrir skipað, að ekki sé borgaður skattur af þeim tekjum, sem ætlaðar eru til þess að borga vexti af skuldum. Það er vitaskuld, að afleiðingin af því ákvæði er sú, að skatturinn kemur meir niður á þá sönnu eign, þannig að sá sem á eignina skuldlausa, borgar meira en sá sem á hana með áhvílandi skuld. Annars átti eg sízt von á þessari mótbáru frá háttv. 2. þm. Húnv. (Tr. B.), með því að hann hreyfði þessu ekki meðan nefndin starfaði, jafnvel þó hann ætti sæti í nefndinni. Var þá sannarlega tími og tækifæri til að hreyfa þessu atriði.

Þar sem hann var að lýsa undirtektum, þeim sem frumv. hefði fengið á þingmálafundum í kjördæmi sínu, Húnavatnssýslu, þá verð eg að leiðrétta það að nokkru leyti. Það var alment álitið, að þetta frumv. mundi koma fyrir þingið 191; var málið því tekið til athugunar víða út um land. Aðallega voru það tvær sýslur, sem athuguðu málið vandlega, Árnessýsla, þar sem skipuð var sérstök nefnd til að íhuga málið, og Húnavatnssýsla. Ekkert kjördæmi á landinu mun hafa athugað þetta mál eins vandlega og hún. Var haldinn sameiginlegur fundur fyrir alla sýsluna á Hnausum í Janúar 1911 og mættu þar 18 fulltrúar úr 10 hreppum kjördæmisins auk þingmannanna. Þar var skipuð aukanefnd í málið, og var eftir tillögum hennar samþykt fundarályktun með miklum meiri hluta atkvæða þannig orðuð:

“Fundurinn aðhyllist stefnu skattamálanefndarinnar að því er beina skatta snertir„.

Skýrsla 2. þm. Húnv. (Tr. B.), þar sem hann Segir að skiftar hafi verið skoðanir um málið, er því töluvert villandi.

Þá kemur þessi aukanefnd á Hnausafundinum með nokkrar breyt.till. við frumv., sem að ýmsu leyti hafa verið teknar til greina við meðferð málsins. Yfir höfuð get eg ekki orðið var við annað en að þeir hafi minst á móti þessu máli, sem mest hafa um það hugsað.