30.07.1913
Neðri deild: 22. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 558 í C-deild Alþingistíðinda. (402)

7. mál, fasteignaskattur

Pétur Jónsson:

Mig langaði til að segja nokkur orð, af því að eg var fyrir eina tíð riðinn við þessi frumvörp. Eg er stjórninni þakklátur fyrir að hún hefir nú tekið upp þessi frumvörp til umbóta á inum beinu sköttum landsins. Eg vona, að þessari stjórn auðnist nú eða síðar að koma þessu máli til lykta á farsællegan hátt, ekki af því að eg áliti svo mikið unnið með þeim fyrir fjárhag landsins í bráð, heldur fyrir skattamál landsins. Mér þótti mikið fyrir því, að eitt af frumv. milliþinganefndarinnar í þessu kerfi vantaði, frumvarpið um eignarskattinn; með því frv. var reynt að endurreisa þann fræga skatt, sem settur var með Gizurarstatútu 1096. Helztu mótbárurnar, sem fram hafa komið hér gegn fasteignaskattinum og takandi eru til greina, eru sprottnar af því, að frumvarpið um eignarskatt fylgdi ekki með. Það hefir verið veigamesta ástæða þeirra, sem talað hafa á móti fasteignaskattinum, að hann væri ekki lagður á eignirnar skuldlausar, aftur á móti átti eignaskatturinn að eins að leggjast á skuldlausar eignir. Enda var svo upphaflega til ætlast í milliþinganefndinni, að fasteignaskatturinn yrði 3 af þúsundi, en eignaskatturinn einn af þúsundi; en svo varð ofan á að þeir urðu gerðir jafnir, 2 pro mille hvor um sig, til þess að gera skuldlausa eign þeim mun skatthærri. En þótt stjórnin hafi ekki lagt þetta frumv. um eignaskatt fram nú, þá vona eg að það sé geymt, en ekki gleymt, og komi síðar. Eg sakna þess líka, að frumvarpið um sveitargjald hefir ekki verið lagt fyrir þingið. Það er áríðandi fyrir sveitirnar að fá betri gjaldstofn en nú er, einkanlega ef breytt verður landssjóðsgjöldunum, t.d. ábúðarskattinum og lausafjártíundinni.

Eg skal nú ekki fara lengra út í þetta mál alment, en skal snúa mér að þessu frumvarpi.

Eg vil biðja menn að gæta vel að því, eins og hæstv. ráðh. (H. H.) hefir líka tekið fram, að hér er ekki að ræða um önnur gjöld en þau sem annað hvort yrði létt af mönnum, eða yrðu borguð hvort sem er á annan hátt. Hér er ekki um það að ræða að auka tekjur landssjóðs, heldur er hér að ræða um breyttan skattstofn. Það er hugsanaruglingur að hafa það á móti þessu frumv., að það miði að því að auka tekjur landssjóðs að nauðsynjalausu. Það má nú ef til vill færa góð rök að því, að auka þurfi tekjur landssjóðs. En um það er alls ekki að ræða hér. Hér er eingöngu á það að líta, hver skattur sé sanngjarn, og það eiga menn að íhuga rólega og blátt áfram. Eg verð þá fyrir mitt leyti að segja það, að eg álít engan skatt eðlilegra eða sanngjarnara en fasteignaskatt, því að þar er um skatt að ræða, sem hvílir á, uppsprettu framleiðslunnar. Um það mun enginn ágreiningur vera milli skattfróðra manna, þó að ágreiningur sé hér í deildinni. Og ef það er rétt, að þessi skattur sé sanngjarn, þá skil eg ekki hvílkum mótmælum hann sætir hér.

Að því leyti sem lagt er út í að breyta eldra fyrirkomulagi, þá er sjálfsagt að breyta í betra horf, enda er það meiningin með þessu frv. Þetta held eg ekki að verið hafi ljóst fyrir þeim sem talað hafa á móti frumv., þegar þeir hafa sagt, að frumvarpið væri ósanngjarnt. Eg veit ekki, við hvað þeir miða, er þeir segja svo, en mér skilst þeir miða við núverandi fyrirkomulag, en ekki við það, sem eg bjóst aðallega við að menn mundu hnjóta um; eg á við húsaskatt í kaupstöðum; þar er breytingin að líkindum sumum tilfinnanleg. Á það hefir enginn drepið, nema lítillega einn af meðmælendum frv. Þessum skatti er ætlað koma fyrir tvo skatta, fyrst og fremst ábúðarskattinn, sem nema mun 30–35 þús. kr.; raunar verður ekki um það sagt nákvæmlega, því að lausafjárskattinum er slengt saman við. Hinn skatturinn, sem hverfur, er húsaskatturinn, sem nemur 13–14 þús. kr. Enn fremur er partur af núverandi l tekjuskatti, skattinum af fasteignatekjum, sem hverfur eftir tillögu nefndarinnar í skattamálinu. Í stað þessara skatta kemur nú fasteignaskatturinn, sem áætlað er að nema muni 70 þús. kr., og samsvarar hinum fyllilega, en ekki stórum meira.

Þótt menn segi nú, að þessi frumv. komi mönnum á óvart inn á þingið, þá er það hin mesta fjarstæða. Mönnum ætti ekki að koma það á óvart eftir að milliþinganefnd hefir haft skattamálin til meðferðar, tillögur hennar sendar út um land alt, auk þess sem menn hafa getað speglað sig í blöðunum í þessum tillögum. Hér við bætist það, að Alþingi hefir kipt út úr kerfi milliþinganefndarinnar tveim frumv. og gert að lögum, kirkjugjaldafrumv. og prestsgjaldafrumv., og hefir þar með verið létt af jörðunum kvöðum þ. e. tíundum presta og kirkju, sem eru eign ins opinbera. Þessum gjöldum hefir verið létt af einmitt í skjóli þessa máls í þeirri von, að fasteignaskattur kæmist á.

Menn verða jafnframt að gæta þess, hverju létt er af leiguliðunum. Eg skal með fám orðum benda á það, hvernig þessir skattar, sem létt er á leiguliðum, taka sig út. Eg geri ráð fyrir 20 hndr. jörð. Þá er létt á leiguliðanum í fyrsta lagi tíund til presta og kirkna, sem nemur 18 álnum á 20 hndr. jörð. Eg geri ráð fyrir að fátækratíundinni verði líka létt af þeim innan skamms. Ennfremur ábúðarskattinum, sem nemur 8 álnum. Þetta verða alls 26 álnir, eða — reikni maður alinina á 55 aura kr. 14.30. Sé ábúandi jafnframt eigandi, er einnig létt af honum eignartekjuskatti, sem nemur 4% af tekjunum af þessari 20 hundraða jörð. Gerum ráð fyrir að eignin sé 150 kr. hundraðið = 3000 kr. með 5% afgjaldi, þá nemur eignaskatturinn 6 kr. Það sem á leiguliðanum er létt, nemur því alls kr. 20,30 á 20 hndr. jörð. Hvað er svo sett í staðinn ? Jörðin metin á 3000 kr. Þá skattur þar af 6 kr. Þar við bætist gjald til prests og kyrkju fyrir eigandandann og konu hans kr. 4,50. Þetta verður samtals kr. 10.50. Munurinn á álögunum eftir frv. verður því kr. 20,30 = kr. 10,80 eða kr. 9,80. Ekki er þetta að íþyngja. Ekki þurfum við bændurnir að kvarta.

Hvað hús snertir, þá ber þess að gæta, að nú er búið að létta af þeim kyrkjugjöldum. Eftir frumvarpinu er ætlast til að húsaskatturinn sé afnuminn. Þessi gjöld nema alls 2 kr. af 1000 krónum; með öðrum orðum, það er alveg jafn hátt og skatturinn samkvæmt frumvarp inu. Munurinn er að eins sá, að eftir núgildandi lögum er hægt að draga frá þinglesna skuld, sem á húsinu hvílir. Eg gizka á að þinglesnar skuldir nemi til jafnaðar 1/4 af verði hússins. Bankar lána aldrei, að eg hygg, hærra en 1/4 af verðinu og vanalega er búið að borga eitthvað af, svo að það er mikið í lagt, ef áætlað er að meira hvíli á því en 1/4. Skatturinn hækkar því um gjald af þesaum 1/4, nema það komi í ljós, að þegar húsin með lóðum eru virt til skatta, að hærri upphæð komi til skattgjalda. Þá er það lóðin, sem kemur loks til skattgjalda. En það er líka aðalkosturinn við frv.ið, að skatturinn hér líka til lóðanna. Það eru verðmæti, sem bezt eru fallin til skattgjalds, framleidd að miklu leyti án tilverknaðar eða kostnaðar fyrir eiganda — verðmæti, sem þjóðfélagið hefir skapað að mestu.

Háttv. framsögum. minni hlutans (Kr. D.) sagði, að ekki ætti að vera að hækka skatta, nema brýn fjárþörf væri. Eg get nú ekki skrifað undir það að öllu leyti. En hvað sem því líður. Þessi háttv. þm. ruglaði hér dálítið saman. Hér er ekki fyrirliggjandi að ræða hækkun á skatti, eins og eg áður tók fram, heldur hitt, að koma á sanngjörnu skipulagi. Og það er ekki í ótíma uppborið. Það er nauðsynlegt að koma þess u máli á framfæri sem fyrst, því að þetta er að eins fyrsta sporið. Skatturinn hefir þann kost að hann getur þróast áfram. Í öllum nærliggjandi löndum hefir eins verið farið að í byrjun og nú er farið að byggja ofan á það. Í Englandi hefir fasteignaskatturinn verið eitt stærsta málið á dagskrá seinustu árin. En það er ekki verið að byrja að koma þar á fasteignarakatti nú, heldur verið að byggja ofan á hann; þ. e. koma á aukaskatti á þá verðhækkun fasteigna, sem er fram komin við tilverknað og koatnað eiganda, en aldrei er farið að leggja þess konar skatt á jarðeignir, nema einhver jarðskattur sé fyrir.

Sami háttv. þm. bar fyrir sig þjóðarviljann. Eg hygg nú að það sé þýðingarlítil mótbára. Í fyrsta lagi stöndum við þar, maður á móti manni og eg veit ekki til að hann hafi meiri kunnugleika á skoðunum manna í því efni en eg; hann ætti að öllum líkindum að hafa minni kunnugleika. Eg hefi haft meiri ástæður til að tala við menn um málið, vegna þess að eg hefi sjálfur tekið þátt í því að semja þessar tillögur. Og í öðru lagi, jafnvel þótt þjóðin væri mótfallin þessum tillögum, þá atafar það ekki af öðru en því að hún er mótfallin öllum nýjum sköttum. Þótt menn vilji fá sem mest úr landssjóði, þá vilja menn leggja sem minst af mörkum í landssjóð. Þar um má með sanni segja: Sú hægri hönd veit ekki hvað in vinstri gerir. Eg segi það alls ekki til þess að lítilsvirða alþýðu manna, en eg álit þessi mál ekki alþýðu meðfæri. Það er ekki hvers manna meðfæri að dæma um, hvernig sanngjarnast verður farið að því að jafna gjöldunum á landamenn. Þekkingin í þess um efnum kemur ekki af sjálfu sér, heldur verða menn að afla sér fróðleika um þau og kynnast skoðunum hagfræðinga og annara vísindamanna áður en þeir geta dæmt. Og eg get borið marga þeirra fyrir mig í því, að þessir skattar eru bæði eðlilegir og réttlátir.

Háttv. 2. þm. S.- Múl. (G. E.) talaði í sömu átt. Satt að segja hefði eg getað búiat við, að hann sem lögfræðingur hefði eitthvað fram að bera, sem fæli í sér dýpri hugsun en hjá alþýðu manna alment. En mér hefir skjátlast í því. Hann gerði ekki annað en skírskota til þjóðarviljans. En þegar háttv. þm. Var mintur á skoðanir kjósenda í Þingeyjar- sýslu, vildi hann gera lítið úr þeim, og vegna þess að þeir mundu hafa verið undir áhrifum þingmannsins. En hvort þeir hafa frekar verið undir áhrifum en aðrir kjósendur er ekki ljóst, og heldur ekki líklegt. En segjum að þeir hafi orðið fyrir áhrifum eina og aðrir. Voru þá áhrif frá mér skaðlegri en öðrum af því eg frekar en flestir þingmenn hefi haft köllun og ástæðu til þess að hugsa þessi mál vandlega, rannsaka og bera saman ýmsar tillögur þar að lútandi ? Nei. Þessa kjósendur ætti að vera meira að marka en þá kjósendur landsins, sem ekki hafa átt eins mikinn kost á leiðbeiningum og eg gat gefið mínum kjósendum.

Eg skal engu spá um þetta frumvarp á þingi nú. Hvernig sem það fer, þá veit eg að þetta er framtíðarmál, það er ótvírætt apor í menningaráttina. Og það er bezt að byrja að stíga það spor sem fyrst. Allur dráttur og hik þokar okkur meir og meir aftur úr öðrum.