30.07.1913
Neðri deild: 22. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 567 í C-deild Alþingistíðinda. (404)

7. mál, fasteignaskattur

Tryggvi Bjarnason:

Hæstv. ráðherra sagðist ekki hafa akilið dæmið, sem eg tók, þegar eg var að bera saman skattgreiðslu og eign tveggja manna. Bygði hann það á því, að því er hann sagði, að eg hefði ekki tekið tillit til þeirrar vaxtagreiðslu, sem dragast ætti frá. En það gerði eg nú einmitt, og verð eg því að halda fast við, að dæmið hafi verið rétt tekið.

Háttv. framsögum. meiri hl. (Ól. Br.) sagði, að sér kæmi það á óvart, að eg hefði sagt, að einn lið vantaði í frumvarpið. En þó gat hann þess sjálfur í framsögu sinni, að þennan lið vantaði — skatt af skuldlausri eign. Hann sagði, að eg hefði átt að hreyfa því í nefndinni. Mér hefði þótt aðgengilegra að samþykkja frumvörpin, ef eignaskattsfrumvarpið hefði verið tekið með og fasteignaskattur lægri, en hér er ákveðið, t. d. 1% og svo 1% í eignaskatt. En mér fanst meiri hlutinn þegar slá því föstu, að fengi frumvarpið ekki að halda sér óbreytt, þá yrði skattaupphæðin alt of lág. Annars átti eg privat-samtal um þetta við hv. frams.m. meiri hl. (Ól. Br.) og furðar mig á því, að hann skyldi ekki hreyfa því í nefndinni að taka eignaskattsfrumvarpið með.

Hann furðaði sig einnig á andmælum mínum, þar sem Húnvetningar hefðu fyrir 1911 fallist á frv. þessi. Það er rétt, að þá var haldinn þingmálafundur í Hnausum með fulltrúum úr hverjum hreppi, og þó að tillögur skattanefndarinnar næðu meiri hl. á fundi, þá sannar það ekki að þeir sömu menn feldu sig við þessi frumvörp, eins og þau liggja fyrir nú, ofan á vörutollslögin, er Samþykt voru í fyrra. Fulltrúar á Hnausafundinn voru ekki kosnir með tilliti til þessa máls eins, heldur margra annara. Það var reglulegur þingmálafundur. Líka ber þess að gæta, að bannlögin voru þá nýlega afgreidd og öllum ljóst, að eitthvað þurfti til að fylla það skarð, sem í tekjur landssjóðs kom við það. Og þótt það væri ekki meining skattanefndarinnar, að þessar tekjur kæmu upp í þann tekjumissi, þá er eg viss um að margir hafa á þeim tíma hugsað, að þetta gæti þó að einhverju leyti komið upp í það, og mun hafa verkað töluvert á menn, að falla ekki á móti þessum frumvörpum. Þá er eg viss um að margir hafa hugsað á þá leið, að þó að þessi tekjuauki hefði komið í staðinn, og þótt hann hefði ekki orðið nógur til að fullnægja þörfinni, þá væri þó með þessu fengnar talsverðar tekjur í það skarð, sem aðflutningsbannslögin gerðu í tekjur landssjóðs, og þar af leiðandi sáu menn sér ekki annað fært en að sinna þessu, heldur en að finna upp á einhverju nýju, sem kostaði mikla fyrirhöfn og ekki víst að yrði bera. Nú eru fegnar tekjur í þetta skarð og þær fullkomlega nógar, svo að sú ástæða er fallin.

Eg hefi svo ekki fleira að segja. Eg býst við að greiða ekki atkv. á móti frumvarpinu í þetta sinn, því að eg álit rétt að þetta mál fái sem mesta og bezta meðferð á þinginu til undirbúnings undir seinni tímann, því eg býst við að að því dragi, áður langir tímar líða, að föstu sköttunum verði breytt, ef til vill í líka átt og skattamálanefndin hefir lagt til, en eg greiði ekki atkv. með frumvarpinu við þessa umr.