31.07.1913
Neðri deild: 23. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 617 í C-deild Alþingistíðinda. (421)

74. mál, járnbrautarlagning

Flutningsm. (Jón Magnússon):

Háttv. þm. Sfjk. (V. G.) tók þessu máli vel, heyrðist mér; í orði, en mér fanst annað verða ofan á, þegar hann fór að tala um það. Hann var að bera þetta saman við málið, sem lá fyrir þinginu 1894. Eg skal nú ekki segja neitt um það, eg hefi ekki rannsakað það mál svo til hlítar, en eg held í raun og veru að það tilboð hafi ekki verið vel ábyggilegt. Eg hefi skilið það svo, að þessi 50,000 kr. styrkur úr landssjóði í 30 ár hafi átt að vera fyrir járnbrautarrekatur milli Reykjavíkur og Ölfusár. (Valtýr Guðmundsson: Þjórsár). Það getur verið, en munurinn er þó sá, að þessar 50,000 kr. á ári í 30 ár áttu að vera fast tillag, hvort sem brautin græddi eða ekki. Það var því gróðafyrirtæki. En hér er ekki um gróðafyrirtæki að ræða fyrir þá sem taka að sér járnbrautarlagninguna. Ef það sýndi sig, að óægt væri að græða á fyrirtækinu, þá myndi landssjóður auðvitað strax taka það að sér. Þó ekki væri von um nema 1/4% hagnað fram yfir venjulega vexti, mundi landssjóður sennilega ráðast í það. Háttv. þm. Sfjk. (V. G.) virðist ekki hafa skilið, hvað er í boði. Hér eru í boði peningar móti tryggingu frá landssjóði fyrir því að af þeim greiðist 5% vextir, og annað ekki. Aftur á móti er til þess ætlast, að landssjóður eigi koat á að taka að sér fyrirtækið. Þetta er fulleinfalt mál, og eg skal sérstaklega taka það fram, að mér þykir það furðu sæta, að háttv. þm. Dal. (B. J.), sem annara er mjög skilningsgóður á önnur mál, virðist ekki skilja upp né niður í þessu. Þetta mál er þó svo einfalt, að það ætti að vera skiljanlegt hverjum manni með sæmilegri barnaskólaþekkingu, hvað þá þingmönnum. Það snýst alt um það, hvort þingið vilji tryggja þeim, sem fyrirtækið taka að sér, 5% vexti.

Eg verð að geta þess, að eg er þakklátur háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. Ól.) fyrir það, að hann var ekki að tína út einstök atriði eins og hinir tveir, sem töluðu, heldur talaði hann um málið alment eins og á að gera við 1. umr. Það er ósiður, sem virðist vera farinn að tíðkast hér í deildinni, að blanda saman 1. og 2. umr.

Það er hægt að setja nægilega tryggingu fyrir því, að landið taki ekki við brautinni í óstandi. (Valtýr Guðmundsson: Landið verður að borga). Landið fær það aftur, þegar það tekur við brautinni, og eg er sannfærður um, að það tekur við henni. HV. þm. Sfjk. (V. G ) var að vanda um það vegna sveitanna, að þær þyrftu að láta land undir brautina. Það væri sannarlega ekki of mikið þó alt land undir brautina væri heimtað gefins, því að það er svo mikið, sem jarðirnar græða á brautarlagningunni. Annars finst mér að þessi hv. þm. ætti ekki að vera að finna að þessu, heldur eftirláta það þingmönnum hlutaðeigandi Sýslna.

Það er svo að segja að eins eitt rétt hjá háttv. þm. Sfjk. (V. G.) og háttv. þm. Dal (B. J.), og það er það, að áhættan sé hjá landssjóði. Og hvernig ætti það öðruvís að vera ? Eg býst við að það yrði örðugt fyrir hvern þingmann sem er hér í salnum, að fá nokkurn peningamann frá útlöndum til að leggja fé í fyrirtæki hér úti á Íslandi, nema með nokkurri trygging fyrir gróða. Mér þætti gaman að sjá háttv. þm. Sfjk. (V. G.) eða háttv. þm Dal. (B. J.) koma með tilboð frá erlendum peningamanni um að taka að sér eitthvert Verklegt fyrirtæki hér á landi, ef út líti fyrir að það borgaði sig ekki. En ef það væri sjáanlegt, að fyrirtækið borgaði sig, væri sjálfsagt að landið ræki það sjálft.

Þá heyrðist mér háttv. þm. Sfjk. (V. G.) vera að kvarta um það, að stjórnarráðinu sé gefinn réttur til að tryggja það, að byggingarkostnaður brautarinnar fari ekki fram úr sæmilegu verði. Eg sé ekki að það sé í þágu leyfishafa, og hélt að það væri miklu fremur í þágu landsins. Eins er það með ákvæðið um taxtana, sem hann gerði talsvert veður út af. Það er ekki í þágu leyfishafa, og sýnist miklu fremur vera í þágu landsins og sveitanna.

Þá var háttv. þm. Sfjk. (V. G.) að tala um, að það væri ófært að setja ákvæði um að tryggja innlendum verkamönnum vinnu við lagningu brautarinnar. Eg veit ekki betur en að íslenzkir verkamenn vilji gjarnan sitja fyrir vinnu hér á landi. Það yrði líka ódýrara, og ekki eru Íslendingar svo ómyndarlegir, að þeir geti ekki unnið að járnbrautarlagningu. Svo talaði hann um verðhækkunargjaldið, 2% af verðhækkun eigna, sem stafaði af járnbrautarlagningunni. Honum þótti það of lágt og vildi gjarnan hafa það 10%. Við skulum nú líta á dæmi. Ef jörð hækkar í verði um 1000 kr., þá verður eigandi hennar að greiða 20 kr. verðhækkunargjald Samkv. frumv. En ef það væri 10%, þyrfti hann að gjalda 100 kr. bara fyrir það, að jörðin hefir hækkað í verði að mati, án þess að hún hafi hækkað að afurðum. Það er jafnvel fullhátt að taka 2%. Þetta sýnir, að þm, hefir ekki hugmynd um, hvað þessi verðhækkun er, og þessi meinloka sýnir, hvað lítið þingm. hefir hugsað um málið. Þá sagði hann, að verðhækkunin kæmi að eins á þessar fimmtán jarðir, sem brautin kemur til með að liggja um. En vitanlega kemur verðhækkunargjaldið á miklu fleiri jarðir, þó að það verði auðvitað lægra á þeim jörðum, sem eru fjær brautinni. Ef járnbrautin færi gegnum óbygt land, sem lægi vel til ræktunar, væri það þá skaði fyrir jarðeigendur?

Háttv. þm. Dal. (B. J.) var að tala um, að eg hefði sagt, að þeir sem ekki hefðu trú á þessu frumv., hefðu ekki trú á landinu. Þetta sagði eg ekki, og eg var ekki farinn að nefna þetta frv. einu orði, þegar eg sagði, að þeir sem ekki hefðu trú á járnbrautarmálinu, hefðu ekki trú á landinu. Hann var og að tala um, að í stað járnbrauta til flutninga gætu komið mótorvagnar eða hvað hann kallaði það. (Bjarni Jónsson: Rennireiðar). Þessar rennireiðar, sem enn eru uppfundnar, geta ekki gengið hér á vetrum. Á sumrin eru þær góðar til mannflutninga, en til vöruflutninga munu þær reynast allsendis óhæfar hér á landi. Að öðru leyti var ræða háttv. þm. Dal. (B. J.) að mestu leyti sama og ræða háttv. þm. Sfjk. (V. G.), og er því óþarfi að svara henni nokkuð frekara, þar sem eg hefi svarað ræðu háttv. þm. Sfjk. Eg vil heldur ekki vera að lengja málið nú við 1. umr. Eg vona að það komist í nefnd.

Mér virðist mönnum ekki vera það ljóst, að tryggingin fyrir því að leyfið verði ekki notað landsmönnum til skaða, liggur einmitt afar-mikið í því, að landinu er áskilinn réttur til að taka við brautinni, ef vili hvenær sem þóknast. Um hitt, tryggingu gagnvart leyfishöfum, er vafasamt hvort setja eigi í lögin, eða gefa stjórnarráðinu heimild til að ákveða hana. Getur verið að þingmönnnm þyki það tryggilegra.

Það sem háttv. þm. Dal. (B. J.) Var að segja um Sameinaða gufuskipafélagið, var, með leyfi að segja, bara rugl. Því að ef félagið má ekki sjálft ákveða taxtana, þá getur það ekki brúkað þá aðferð, sem hann talaði um, ef það bygði brautina.

Eg sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta. Eg vona að málið verði sett í nefnd og býzt við að þurfa ekki að tala frekar í því að þessu sinni.