31.07.1913
Neðri deild: 23. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 625 í C-deild Alþingistíðinda. (427)

86. mál, aðflutningsbann á áfengi

Guðmundur Eggerz:

Eg verð nú að segja það, að mér finst þetta ekki vera neitt merkilegt frumv., endi vænti eg þess, að bannlögin verði bráðum afnumin. Að minsta kosti mun verða borin hér fram í deildinni innan skamms tillaga, sem fer í þá átt að stjórnin hlutist til um, að atkvæðagreiðsla fari fram um það, hvort bannlögin skuli úr gildi numin eða ekki.

Annars er það það eina, sem eg hefi á móti frumvarpinu sjálfu, að það bætir bannlögin. Þau verða þá ekki út af eins vitlaus og áður. Það er annars skoplegt, að fyrst nú eftir landsyfirréttardóminn alkunna, kemur það stóra bannlagagat í ljós, að menn úr landi geta að ósekju farið um borð í skipin og haft með sér áfengi í land.

Mér þykir ástæðulaust og lítt vinnandi verk að bæta allar glompur á bannlögunum. Flíkin getur farið svo illa og verið svo götótt, að óhyggilegt sé að sletta bót eða bótum á hana.

Eins og eg tók fram áðan, bætir þetta frumv. bannlögin nokkuð, og þess vegna er eg heldur mótfallinn frumvarpinu. Danski talshátturinn: „Jo galere jo bedre“ á annars mæta vel við bannlögin.