31.07.1913
Neðri deild: 23. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 629 í C-deild Alþingistíðinda. (432)

84. mál, stimpilgjald

Ráðherrann (H. H.):

Ástæðan til þess, að stjórnin ekki kom fram með þetta frumv., er sú, að á þinginu 1911, þegar samþ. voru in nýju lög um aukatekjur landssjóðs, voru hækkuð stórum ýmis gjöld, einmitt, með tilliti til þess, að hér var ekki lögleitt stimpilgjald. Það væri þess vegna ósanngjarnt að samþykkja þetta frumv. nú, án þess að breyta um leið þeim lögum aftur, því ella verða gjöldin á sumum greinum viðskiftalífsins lítt bærileg. Eg nefni til dæmis þinglýsingargjaldið. Það var stórum hækkað og sérstaklega breytt fyrirkomulagi þess í lögunum 1911. Ef heimtað er hvorttveggja, bæði það sem nú er lögleitt, og svo þetta ofan á þinglýsingargjaldið, þá mundi það leggja þungar byrðar á viðskifti manna á meðal, sérstaklega að því er in stærri viðskifti snertir. Atvinnuvegirnir eru ört að breytast, þannig að nú er orðið um miklu stærri upphæðir að ræða en áður var; vil eg t. d. nefna botnvörpuútgerðina og ina nýju síldveiði o. fl. Nú er oft um stórar lánsupphæðir og stórar söluupphæðir að ræða, er geta oft gengið manna á milli: eigendaskifti og lánum víxlað til. Sé þinglýst kaupbréfi eða kaupsamningi um botnvörpung, sem kostar 100,000 kr., þá er þinglestrar í gjaldið 102 kr., og sé jafnframt veðskuldabréf þinglesið fyrir talsverðu af kaupverðinu, þá bætist við álitleg upphæð. Ef nú enn á að bæta Við þetta stimpilgjaldi, 1/2%, þ. e. 500 kr. af 100 þús. kr., þá verður ekki alllítill kostnaðurinn við eigendaskifti að slíkum atvinnutækjum.

Í smærri stíl eru stimpilgjöldin af öðrum greinum, þar er gjöld hafa verið hækkuð í inum nýju aukatekjulögum, og yrðu tilfinnanlegri þó, svo er t. d. um réttargjöldin. Ef nú á að fara að bæta við stimpilgjaldi á hverja einustu stefnu og sáttakæru, fyrir utan það, þau gjöld hafa verið hækkuð í aukatekjulögunum, þá verður í mörgum tilfellum tilfinnanlega erfitt að leita réttar síns. Mér finst þessi útgjöld vera nóg eins og þau eru, og ekki sé rétt að samþykkja þetta frv., nema þá með því að breyta um leið eldri lögunum.