01.08.1913
Neðri deild: 24. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 641 í C-deild Alþingistíðinda. (441)

3. mál, fjáraukalög 1912 og 1913

Ráðherrann (H.H.):

Eg hafði ekki ætlað mér að tala í þessu máli, enda skal eg vera stuttorður. Eg verð að neita því, að fundurinn hafi verið prívatfundur, og eg skil ekki í þeim ofsa, sem háttv. þm. Sfjk. (V. G.) hefir erfiðað sig upp í út af því. Hann vissi vel, hvað eg hafði í hyggju þegar eg fór frá Höfn, og hafði ekkert á móti því þá. Hann vissi vel og veit enn, hvers vegna lá á því, að stjórnin kallaði saman þingm. til ráðuneytis. Spurningin var sú, hvort gera skyldi þá ákvörðun, að málið yrði lagt undir þjóðaratkvæði svo snemma, að semja mætti frumv. á þessum eða líkum grundvelli áður enn ráðherrann sigldi á konungsfund. Þá ákvörðun gat eg ekki gert upp á mitt eindæmi. Eg var bundinn því loforði, ef þeim tillögum, sem þingmenn höfðu komið sér saman um, fengist ekki framgengt að mestu óbreyttum, að bera það undir þá, hvort þeir vildu fallast á það sem í boði kynni að verða eða ekki, og hvort þeir teldu líklegt, að nægilegt fylgi fengist hjá þjóðinni, til þess að tefla ekki þessu máli út í innanlandsrimmur og ef til vill skipbrot. Þessu var því ekki hægt að fresta, ekki sízt fyrir þá sök, að viss blöð hér í bænum höfðu þegar fyrir fram byrjað á þeim fádæma ósannindum og getsökum um málið, að það mun fátítt að slíkt komi fyrir í nokkru siðuðu landi.