01.08.1913
Neðri deild: 24. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 642 í C-deild Alþingistíðinda. (442)

3. mál, fjáraukalög 1912 og 1913

Lárus H. Bjarnason:

Fjárlaganefndin hefir eigi átt kost á að bera sig saman um breytingartill. á þgskj. 228, en hins vegar hefir nefndin óbeinlínis tekið afstöðu til tillögunnar á þgskj. 210 um, að fella burt fyrsta lið 9. gr. fjáraukalagfrumv. Það hefir nefndin gert með því að amast við liðnum. Eg fyrir mitt leyti mun greiða br.till. á þgskj. 228 atkvæði mitt, með því að hún slær því einu föstu, sem eg held hafi vakað fyrir fjárlaganefndinni. Brt. á þgskj. 210 ræð eg hins vegar til að fella.

Út af því, sem hæstv. ráðherra sagði, að það hefði legið á að halda þennan fund, verð eg halda því gagnstæða fram. Það var alls engin ástæða til að halda nokkurn fund, með því að það átti að vera öllum fyrir fram vitanlegt, að kostirnir voru öldungis óboðlegir Íslendingum eftir millilandafrv. 1908. Sízt var ástæða til að halda fundinn svona snemma, þar sem hæstv. ráðherra fór ekki utan fyr en með vorinu. Og allra sízt var ástæða til að boða til fundar með jafnstuttum fyrirvara; fundurinn var boðaður 4. Desember og haldinn 9. og 10. s. m. Liggur í augum uppi, að á þessum stutta tíma var ekki hægt að hafa tal af nógu mörgum þingmönnum til þess að komast fyrir afstöðu þingmeirihlutans til inna framboðnu kjara. Hvort fundurinn er kallaður flokksfundur eða ekki, skifti eg mér ekki af. Á honum voru 16 Þingmenn, þar af voru allir úr »Sambandaflokknum« svo kallaða, nema tveir, Júlíus Havsteen og Kr. Jónsson, og þannig í rauninni allir af sama sauðahúsinu, því að mér er persónulega kunnugt um, að Kristján Jónsson hafði þegar 1911, nokkru fyrir kosningarnar, tekið vingjarnlega afstöðu til sambandamálsins.