01.08.1913
Neðri deild: 24. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 653 í C-deild Alþingistíðinda. (462)

83. mál, síldarleifar

Stefán Stefánsson:

Hv. 2. þm. S.-MúI. (G.E.) talaði um, að hægt væri að fyrirbyggja, að leifar færi í sjóinn, með heilbrigðissamþykt. Þar til er því að svara, að heilbrigðissamþyktir eru óvíðast til nema þá í kauptúnum og sjóþorpum, enda ekki til á þeim stöðum, þar sem mest er um síldarbræðsluna, og þó ekki sé mikils vert að koma á heilbrigðissamþykt, þá er það engu léttara en að búa til lög, er að eins snerta þessar einstöku stofnanir, ef annars þingmenn játa nauðsynina til opinberra afskifta að þessu leyti.

Háttv. þm. Ak. (M. Kr.) sagði, að með þessu væri verksmiðjunum gert óþarflega erfitt, en eg hygg að svo sé alls ekki. Eg þykist sannfærður um, að síldarbræðslumenn gætu komið síldarleifunum frá sér á annan hátt en að kasta þeim í sjóinn; t. d. er mjög líklegt, að bændur mundu vilja kaupa leifar sem áburð, og yrði verksmiðjueigendum þá peningar úr þessum úrgangi, i staðinn fyrir að láta hann fara í sjóinn.

Hins vegar er töluverð reynsla fyrir því, að æðarfuglinn þolir ekki lýsisbrána, sem breiðist út á yfirborði sjávarins frá verksmiðjunum. Fitan festist í fjöðrunum og klístrar þær saman, svo að fuglinn getur ekki hreinsast. Af þessu leiðir, að æðarfuglinn finst dauður svo talsverðu nemur, einkum í námunda við þessar bræðslustöðvar. Eg get sem sagt ekki séð, hvernig þetta frumvarp getur skoðast til meins verksmiðjunum, þó að þeim Sé með því gert að skyldu að fleygja ekki leifunum í sjóinn, þar sem vart er hugsanlegt, að ekki sé hægt að selja þær fyrir eitthvert lítið verð, þar sem vitanlega er töluvert fémæti í þeim til áburðar. Eg vona, að málið verði sett í nefnd og sting upp á að því verði vísað til sjávarútvegsnefndarinnar.