01.08.1913
Neðri deild: 24. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 655 í C-deild Alþingistíðinda. (464)

83. mál, síldarleifar

Fluningsm. (Pétur Jónsson):

Eg átti ekki von á því, að þetta litla frumv. mundi sæta svona miklum andmælum. Eg vil ekki eiga í þrætum um það á þessu stigi; vonast til að nefnd verði skipuð í það, og hún taki það til rólegrar íhugunar.

Það hefir verið talað um það, að ekki mundi þurfa lög um þetta efni, því að hægt væri að taka ákvæði um þetta upp í heilbrigðissamþyktir. En sé þetta efni svo lagað, að ákvæði um það megi taka upp í heilbrigðissamþykt, þar sem slíkt á við, þá mega sömu ákvæði líka gilda á öðrum stöðum, þar sem eins til hagar. Og þá sé eg ekkert á móti því, að setja um það almenn lög. Hitt atriðið, sem haft hefir verið á móti frumvarpinu, tel eg athugaverðara, sem sé það, að það kunni að aftra síldarbræðslunni. Einmitt þetta atriði bar eg undir mann, sem er málinu kunnugur, þótt ekki reki hann þessa atvinnu sjálfur, eg á við háttv. þm. Ak. (M. Kr.). Eg sýndi honum frumvarpið í smiðum, og áleit hann það áhættulaust og að það mundi enga verulega hindrun gera síldarbræðslunni, ef eg strykaði út eitt orð, og það gerði eg. Hér er ekki um annað en þann sjálfsagða hluta að ræða, að þessum síldbræðslustofnunum sé bannað að kasta í sjóinn eða annarstaðar leifum, sem skepnum geti orðið að grandi. Eg sé ekki, að hér sé um nokkur höft á þessum atvinnuvegi að ræða eða neitt meira en alment hreinlæti heimtar, enda skoðaði eg ummæli háttv. þm. Ak. (M. Kr.) ekki öðruvís en svo, en að hann varaði við því að ganga lengra en frumvarpið fer.