01.08.1913
Neðri deild: 24. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 657 í C-deild Alþingistíðinda. (467)

91. mál, kornforðabúr til skepnufóðurs

Framsögum. (Pétur Jónsson):

Menn kannast við lögin um kornforðabúrssamþyktir, þau er samin voru á þinginu 1909. Þau veita að eins heimild til þess að stofna kornforðabúr, eftir því sem samkomulag fæst til í því eða því bygðarlagi. En lögin gera ekkert til þess að örva menn til að stofna slík kornforðabúr, með styrk úr landssjóði eða því um líku. Alt öðru máli er að gegna um lögin um heyforðabúr; það er með lögum ákveðið, að kostnað við þau skuli landssjóður borga að tilteknum hluta. Nú hefir oss nokkrum mönnum komið til hugar, hvort ekki væri hægt að örva menn upp til þess að tryggja Sér kornforða, framar en nú á sér stað. Kornforðabúr eru enn mjög óvíða á komin; áhugi manna er ekki vaknaður í þeim efnum, jafnvel þótt Búnaðarfélag Íslands hafi stutt að stofnun þeirra og veitt til þeirra dálítinn styrk. Á hinn bóginn er mér kunnugt um það, að með vaxandi samkepni í verzlun og auknum vetrarferðum, þá eru verzlanir yfirleitt miklu ver birgar að korni síðari hluta vetrar, en áður var. Ef því skipaferðir einhverra orsaka vegna teppast, þá geta heil héruð orðið í hættu. Um þetta efni leyfi eg mér að skírskota til innar rækilegu ritgerðar Guðmundar landlæknis Björnssonar, sem nýlega er út komin; hefir hún fengið mikinn róm meðal manna og þótt orð í tíma talað. Það er alla ekki vel ástatt hér á landi, ef eitthvað ber út af um skipagöngur, og skepnufóður reynist ekki nægilegt. Þetta hefir oss nokkurum mönnum hér í deildinni komið til hugar að lagfæra mætti með lítilli uppörvun á þann hátt, að þar sem menn byndust samtökum um að tryggja sér korn, þótt ekki væri um bein forðabúr að ræða, t. d. semdu um það við kaupfélag eða kaupmann, að hafa nægilegt korn, þá veitti landssjóður dálitla aðstoð. Slíku skipulagi er nú að sögn verið að koma á í Eyjafjarðarsýslu, og liggur fyrir frv., er að því á að styðja. Með þessu frv. er farið fram á það, að hvar sem samþyktir eru gerðar í þessa átt, þá veiti landssjóður ofurlítinn styrk til þess. Eg hefi ekki beint lagt niður fyrir mér, hve miklu þetta mundi nema fyrir landssjóð. Ef landssjóður greiddi t. d. 80 aura fyrir hver 100 kgr. í þeim hluta forðans, sem ekki væri notaður, þá gæti ekki orðið um sérlega stóra upphæð að ræða fyrir landssjóð, en landsmönnum gæti orðið það til uppörvunar. Með 80 aurum fyrir 100 kgr. yrði styrkur landssjóðs 4000 kr. fyrir 5000 tunnur.

Eg leyfi mér að mæla ið bezta með frv. Málið er svo einfalt, að eg álít ekki þörf á að athuga það í nefnd, enda gæti það orðið málinu til tafar, svo áliðið sem er þingtímann. Í raun og veru er líka sama sem málið hafi verið athugað í nefnd, þar Sem það er framborið af nokkurum þingmönnum eftir rækilega íhugun.