01.08.1913
Neðri deild: 24. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 660 í C-deild Alþingistíðinda. (471)

80. mál, gjafasjóður Jóns Sigurðssonar

Flutningsm. (Stefán Stefánsson):

Það eru nú liðin rúm 80 ár síðan Jón Sigurðsson á Böggvisstöðum í Svarfaðardal gaf þessa höfðinglegu gjöf, Sem nú er orðin nær því 55 þús. kr. Gjöfin var gefin í því skyni, að fyrirbyggja hungursneyð eða manndauða af hallæri í Eyjafjarðarsýslu. En gjafabréfið er þannig orðað, að ekki er hægt að gripa til gjafarinnar eða gera eiginlega nokkrar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir almenna neyð, sem leiðir af harðæri, fyr en allar bjargir eru bannaðar og orðið um seinan.

Þessu til sönnunar skal eg með leyfi háttv. forseta lesa upp nokkur orð úr gjafabréfinu. Það er er einmitt sá kaflinn, sem þetta frv. fer fram á að breyta. Hann hljóðar svo:

»En þó að legatið svoleiðis sé lagt til amtsfátækrakassans, og standi undir stjórn amtmanns (og amtsprófasts) skal þó einasta Eyjafjarðarsýsla njóta góðs þar af í almennum neyðartilfellum á þann hátt, að ársrentum höfuðstólsins eða ársafgjaldi skal þá, verja til að koma fátækustu eða nauðstöddustu hreppum eða sveitum sýslunnar til hjálpar með innkaupi matarvöru í stórum almennum harðindum (hallæri) þegar liggur við manndauða, alt eftir amtmanns (og amtsprófasts) ákvörðun og ráðstöfun«.

Hér er beinlínis það ákvæði, að ekki megi taka af vöxtum sjóðsins nema við hallæri og hungurdauða liggi. En nú eru þeir tímar komnir, að naumast getur orðið ballæri á Norðurlandi, nema með því eina móti að ís leggist svo að landinu að allar samgöngur tefjist um langan tíma. Sé bókstaf gjafabréfsins fylgt, geta því engin not orðið að sjóðnum, þó að mjög mikið liggi við, og með því móti getur hugsun gefandans ekki komist í framkvæmd.

Nú í vetur var málið til meðferðar á sýslufundi í Eyjafjarðarsýslu og var þar kosin þriggja manna nefnd til þess að undirbúa málið fyrir þingmálafundi og jafnvel fyrir n. k. sýslufund.

Nefndin skrifaði all-ítarlegt nefndarálit og beindi því til þingmálafunda í sýslunni, að skora á Alþingi að hlutast til um, að þessu ákvæði gjafabréfsina yrði breytt. Það kann að mega deila um það, hvort hér sé réttri aðferð beitt til þess að fá gjafabréfinu breytt, því nokkrir munu lita svo á, að réttara hefði verið að fara umboðs-leiðina. En þingmálafundir tóku nú þessa stefnu og því hefi eg leyft mér að flytja málið í þessu formi.

Eg skil ekki að þingið sem slíkt geti haft nokkuð sérstakt á móti þessari breytingu, sem farið er fram á, einkum þegar þess er gætt, að tilgangur gjafabréfsins er augljós, og honum á í rauninni ekkert að breyta, heldur laga hann eftir þeim kringumstæðum sem nú eru.

Eg vil leyfa mér að leggja það til, að þegar umræðunni er lokið, verði 5 manna nefnd sett í málið, hvaða leið sem hún leggur svo til að farin verði, hvort hún vill leggja til að málið fái að halda áfram í þessu formi, eða henni finst æskilegra að samþykt verði þingsályktunartillaga að skora á stjórnina að breyta gjafabréfinu að þessu leyti og fá þannig konungsstaðfestingu. Eg fyrir mitt leyti legg enga sérstaka áherzlu á það, en tel hins vegar þessa leiðina, löggjafarleiðina, fult eins tiltækilega, þó að sumir kunni að líta svo á, að umboðsleiðin sé heppilegi.