04.08.1913
Neðri deild: 25. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 670 í C-deild Alþingistíðinda. (480)

7. mál, fasteignaskattur

Framsögum. meiri hl. (Ólafur Briem):

Það hefir að eins breyt. till. komið fram við þetta frv. frá formanni skattanefndarinnar og mér. Hún er á þgskj. 260 og hljóðar svo:

»Landssjóður telst eigandi allra prestakallaeigna og kirknaeigna annara en bændakirkna«.

Þessi breyt.till. er fram komin vegna orða, sem féllu við 2. umr. þessa máls hjá háttv. 2. þm. Rang. (E. P.). Hann taldi tvímæli á því, á hverjum hvíldi sú skylda að borga fasteignaskatt af jörðum prestakalla. Nefndin hafði ekki tekið þetta atriði sérstaklega til athugunar og lét ekkert í ljós um það í nefndarálitinu. En hæstv. ráðherra gaf þá skýringu við 2. umr., að prestar ættu ekki að greiða þetta gjald, heldur prestlaunasjóður, eða réttara sagt landssjóður, því að prestlaunasjóðurinn er borinn uppi af landssjóði, að því leyti sem hann ber þær byrðar, sem á prestlaunasjóði hvíla, en hann er ekki fær um að bera. Jafnvel þótt þessi skýring hæstv. ráðherra hefði ef til vill verið nægileg, þótti okkur flutningamönnunum rétt að taka þetta fram í lögunum.

Um frumvarpið sjálft hefi eg fyrir hönd nefndarinnar ekkert að segja. Það er í eðli sínu laust við að vera sérmál nokkurrar stéttar, og það er ekki einu sinni sérmál þessa lands, heldur er það alþjóðamál. Það hefir verið lögð mikil atund á það á síðari árum víðsvegar um heim, að laga skattafyrirkomulagið. Norðmenn hafa til dæmis sett fjölmenna og vel skipaða nefnd til að rannsaka þetta málefni. Nefndin var skipuð 1899 og álit hennar prentað 1904. Því fylgja stór skjöl og álit frá ýmsum Stjórnmálamönnum sem svör upp á margvíslegar spurningar, sem nefndin hafði lagt fyrir þá. Skýrsla þessarar nefndar hefir verið höfð að fyrirmynd hjá öðrum þjóðum, þar á meðal hjá Dönum, og eins hefir verið gert hér, því að hún hefir haft mjög svo mikil áhrif á tillögur milliþinganefndarinnar 1907.

Vitaskuld má segja, að hér Sé ekki um neitt stórmál að ræða fyrir okkur, þegar hafðar eru fyrir augum þær tekjur, sem landssjóður hefir af skattinum, hvort sem miðað er við tekjurnar eftir gildandi lögum, eða við það sem þær yrðu eftir þessu frumv. Það munar sáralitlu, og yfir höfuð eru þær tekjur litlar í samanburði við aðrar tekjur landssjóðs. En það er um stórmál að ræða að hinu leytinu, að grundvöllurinn undir lagasetningunni sé réttur. Og það verður nefndin, og þeir sem nú eiga sæti á þingi og voru í skattamálanefndinni, að leggja áherzlu á. Nefndin ber þar ekki einungis fyrir sig sitt álit, heldur og álit þessara útlendu hagfræðinga, sem mikið hafa fjallað um málið.

Eg sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um málið fyr en mótmæli eru komin fram.