04.08.1913
Neðri deild: 25. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 676 í C-deild Alþingistíðinda. (483)

7. mál, fasteignaskattur

Lárus H. Bjarnason:

Eg þykist ekki geta látið jafnmikið mál alveg afskiftalaust, enda þó að viðbúið sé, að einhver rökþrota meðmælandi frumv. núi mér því um nasir, að eg tali fyrir kjósendur, svo sem sumum er gjarnt að gera, ef ekki er dansað eftir nótum.

Við 2. umr. Var gert alt of lítið úr agnúunum, sem á frumvarpinu eru, en of mikið til þess að gylla það frá sjónarmiði bænda. Hefi eg reynt að kynna mér málið eins og mér hefir verið unt, og skal nú með fáum orðum reyna að færa nýnefndum orðum mínum stað.

Fyrst vil eg líta á, hvaða áhrif frumarpið hefði á hag sjávarmanna, og taka dæmi því til skýringar. Því að dæmi skýra mál oft betur en langar ræður. Eg tek til dæmis kaupstaðaborgara, sem á hús virt á 5000 kr. Á húsinu hvílir þinglesin veðskuld að nafninu til 4000 kr., en þó í rauninni ekki nema 2000 kr. Eg læt húsinu fylgja 1100 ál. lóð, met lóðina á 1000 kr. og geri ráð fyrir að 350 ál. sé varið til matjurtagarðs eða stakkstæðis. Loks geri eg manninum 1000 kr. atvinnutekjur.

Hvað geldur slíkur maður til landssjóðs nú, og hvað mundi hann gjalda eftir frumvarpinu ?

Hann geldur að núgildandi lögum (14. XII. 1877, 1. gr.) húsaskatt 1 kr. 50 a. og ekkert annað, með því að 1000 kr. atvinnutekjur eru skattfrjálsar og ekkert gjald er á lóðum. Eftir fasteignaskattsfrumv. og tekjuskattsfrumv. yrði skattgjald hans aftur á móti alls 14 kr. 85 aur ., sem sé 12 kr. fasteignaskattur af húsi og lóð og 2 kr. 85 tekjuskattur; dreg frá brúttótekjunum 430 kr. fyrir vöxtum af 2000 kr., sem eg geri honum að skulda, fyrir framfærslu 3 barna og opinberum sköttum. Skattgjald hans til landssjóðs eftir frumvörpunum yrði þannig hér um bil 10 sinnum hærra en það er nú.

Svo kem eg að landbóndanum. Eg læt hann búa á 20 hndr. sjálfseignarjörð og hafa 10 hndr. lausafjár auk 4 innstæðukúgilda. Eg geri verðlagsskráralinina 55 aura. (Pétur Jónsson: Það er of lágt). Nei. Eg hefi reiknað út meðalalin fyrir land alt 1911 og 1913. 1911 var hún rétt 55 aur., en um 1/2 eyri hærri 1913. Nú geldur slíkur bóndi 4 kr. 40 aura í ábúðarskatt, eða samtals 9 kr. 90 aura. Það er alt og sumt.

Eftir fasteignaskatts- og tekjuskattsfrumvarpinu yrði útkoman aftur á móti önnur. Eg virði hvert jarðarhundrað á 150 kr. og geri jörðina þannig 3000 kr. virði, og yrði þá fasteignaskattur af henni, að ítökum, hlunnindum og grasbýlum og þurrabúðum frátöldum, réttar 6 kr. En þá er tekjuskatturinn eftir. Við hann er örðugra að fást, af því að mig brestur persónulegan kunnugleika á því, hve hátt megi meta atvinnutekjur slíks manns. Þórhallur Bjarnarson biskup gizkar á, að þær muni mega meta um 3000 kr., og dragi maður frá þeirri upphæð um 550 kr. fyrir vöxtum af 2000 kr. skuld, framfæri 3 barnómaga og opinberum sköttum, þá kæmi 2450 kr. skatts og skatturinn yrði þá af þeim sem næst 22 kr., eða, að 6 kr. fasteignaskatti meðtöldum, um 28 kr. En eg vil ekki áætla brúttótekjur bóndans meiri en um 2000 kr. og nettótekjurnar eða skatttekjurnar 1400 kr., en tekjuskattur af þeim yrði samt um 9 kr. og allur skattur bóndans, að 6 kr. fasteignaskatti meðtöldum, þannig um 15 kr. Og munar það ekki litlu frá skatti hans nú.

Á aukaþinginu 1912 var slengt á þjóðina vörugjaldi, sem að ætlun háttv. skattanefndar nemur um 350 þús. kr. á ári, eða 700 þús. kr. á fjárhagstímabili, og nú á næsta þingi á aftur að skella á hana nýjum skatti, 60 þús. kr. á ári, eða 120 þús. kr. á fjárhagstímabili, og líklega töluvert hærri upphæð, því að skattafrumv. munu vera bygð á eignar- og tekjuáætlun frá 1908.

Maður skyldi halda, að bráð og brýn þörf landssjóðs kallaði á nýja skatta, en svo er ekki eftir því sem háttv. ráðherra fórust orð, hagur landssjóðs er eftir þeim að dæma dágóður, enda er þörf ekki borin fyrir, heldur hitt, að nauðsynlegt sé að fara að breyta skattaálögunum, frá óbeinum í beinar. En fyrst og fremst má nú deila um »nauðsyn« slíkrar breytingar, og það því fremur, sem beinu skattarnir hljóta að verða mjög svo óverulegir í samanburði við óbeinu gjöldin, eftir því sem hagar til hér á landi. Og í annan stað fylgir skattafrumvörpunum engin tilslökun á óbeinu gjöldunum. Þjóðin á að eiga effirkaup við löggjafarvaldið um hana, og slík kaup eru því óheppilegri, sem hér er að eins um »byrjun« á nýjum beinum sköttum að ræða, eftir því sem formælendum frumv. hafa farist orð, enda er reynsla gjaldenda á slíkum loforðum löggjafarvaldsins ekki ábyggileg. Þannig átti aðflutningsgjaldshækkunin eftir lögunum frá 29. Júlí 1905 ekki að standa nema til ársloka 1907, en var framlengd með lögum nr. 9 frá 31. Júlí 1907, og loks var henni slegið fastri með lögum nr. 3 frá 31. Marz 1909. Og eitthvað líkt gæti farið um lækkun óbeinu gjaldanna, sem látin er í veðri vaka. Eg gat þess nýlega, að engin stórfyrirtæki væru framundan, er heimti hækkun skatta. En þar við má bæta því, að nú eru launafrumvörpin öll úr sögunni, þau frumvörpin, er komið munu hafa skattafrumvörpunum á stað.

Hér við bætist, að skattar þessir koma þjóðinni alveg á óvart, og það er því óforsvaranlegra, sem þeirra er ekki brýn þörf. Eg segi að þeir kom þjóðinni á óvart, enda þó að eg viti, að frumvörpin séu löngu birt af skattanefndinni. Almenningur hefir vafalaust gleymt frumvörpunum fyrir löngu, að minsta kosti hafði eg nálega gleymt þeim, og svo mátti hann búast við að fá að vera í friði fyrir nýjum sköttum um nokkur ár eftir vörugjaldslögin Sælu frá 1912.

Skattheimtan verður töluvert erfið og kostnaðarsöm og hækkunarheimildin í 7. gr. er enganveginn áhættulaus. Og eg er sammála háttv. 2. þm. Rvk. (J.J.) og háttv. 2. þm. G.-K. (Kr. D.) um, að nýtt mat á jörðum hefði átt að ganga á undan nýjum fasteignaskatti.

Allir skattar, að undanskildum ábúðar og lausafjárskatti, koma þyngra niður á sjávarmönnum en sveitamönnum. Beinu skattarnir, húsaskattur og tekjuskattur, lenda aðallega á þeim. Og líku máli gegnir um óbeinu skattana, tolla og vörugjald. Þeir borga t. d. miklu meira af kaffi og sykurtolli, af því að þeir brúka og verða að brúka meira af þeim vörum, Vegna mjólkurskorts og kjötvöntunar. Þeir einir borga útflutningsgjald, og sama gildir um Vörugjald af kolum og salti.

Það er því sízt bætandi á sjávarmennina, allra sízt að óþörfu, enda batnar ekki hagur sveitamanna við að íþyngja sjávarmönnum um of, heldur þvert á móti. verði sjávarmönnum ofboðið, hljóta skattar á sveitamönnum að hækka, því að landssjóður verður að hafa sitt, hvað sem öðru líður. Og gæti þá farið líkt um okkur löggjafana og fór um manninn, sem ætlaði að hlífa öðrum vagnhestinum sínum með því að taka nokkuð úr vagninum og leggja það á bakið á hinum vagnhestinum. Leikar fóru svo, að hesturinn, sem bæði bar og dró, gafst fljótt upp, svo að skera varð hann frá vagninum, en nokkru síðar fór á sama veg með hinn hestinn, af því að vagninn var of þungur í eftirdragi einum hesti. Og þá varð ökumaðurinn að spenna sig sjálfan fyrir vagninn, en valt innan lítillar stundar um sjálfan sig af eðlilegri ofþreytu.

Það er satt, sem sagt hefir verið, bæði af hv. ráðherra og öðrum, að skattar eru þyngri í mörgum öðrum löndum, og veldur því aðallega það, að vér erum enn lausir Við allan herkostnað. En það tjáir ekki að miða skattþol vort Við skattþol annara þjóða, fremur en burðar- eða dráttarmagn íslenzkra útigangshesta við magn stríðalinna, skozkra »dokkuhesta«.

Það er einkennilegt um brtill. háttv. 1. þingm. Skagf. (Ól. Br.), að hann, bóndinn, hefir munað betur eftir prestunum en stéttarbræðrum sínum, leiguliðum presta, ekki ólíkt því, að hann ha.fi verið hræddari við prestana hér í deildinni heldur en við bændurna.

Eg heyri suma segja, að óhætt sé að hleypa frumvarpinu til efri deildar, því að vist sé, að það verði felt þar. Þetta heyrði eg mann segja, sem þykist vera móti frumv. En fyrst og fremst kemur þetta ekki vel heim við það, sem einn háttv. efri deildar maður sagði rétt í þessari andránni við mig úr hornstólnum hérna fyrir aftan mig. Hann sagði, að frumvarpið mundi ugglaust verða samþykt í Ed., kæmist það þangað. En þar næst lýsa slík orð, í munni frumvarpsandstæðings, grunnhyggju, hugleysi eða jafnvel samvizkuleysi, enda við búið, að svo færi um frumvarpið, væri því hleypt til Ed., sem fór um tófuna sem maðurinn hleypti úr færi, í því trausti að félagi hans næði henni, því að hann matti meira að ná sér í tóbakstölu úr vasa sínum heldur en að skjóta meðan færi gafst, tófan slapp og lagðist síðar á hans eigið fé.

Eg enda svo mál mitt með því að segja sama um þessi skattafrumvörp og eg sagði um »grútinn« svo kallaða á Desemberfundinum 1912: Eg greiði atkvæði móti þeim, þó að eg ætti víst a,ð standa einn. Þau eru óþörf sem stendur og ekki réttlát, þar sem þau lenda á öðrum aðalflokki landsmanna, sjávarmönnum, auk þess sem tekjuskattsfrumvarpið íþyngir tekjulitlum mönnum miklu meira en tekjuháum. Það er gott dæmi þess, að hér er alt á sömu bókina lært.