04.08.1913
Neðri deild: 25. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 681 í C-deild Alþingistíðinda. (484)

7. mál, fasteignaskattur

Ráðherrann (H. H.):

Það er ekki ásetningur minn, að fara að þreyta hér neinar kappræður. Eg vil að eins gera athugasemd út af orðum háttv. framsögum. minni hl.

Það er alveg ástæðulaust, að vera að búa sér til grýlur út af því, þó að þessi akattur sé lagður á, án þess að draga frá fyrir veðskuldum. Það er búið að margsýna sig og sanna, að lögin eru ómöguleg í framkvæmdinni, ef það er leyft, að draga frá veðskuldir eins og mönnum þóknast. Þetta er svo litill skattur, ekki nema 2 pro mille, eða 1/5% að það er ekki mikil viðbót við þá vexti, sem menn greiða nú. Það munar svo litlu á lágum veðskuldum, að það er varla teljandi, og sízt til þess fallið að gera úr því slíkar grýlur, því að grýlur eru það og annað ekki, alt þetta hjal um að hér sé verið að sjúga hvern blóðdropa úr fátækum tómthúsmönnum o. s. frv. Það eru ekki aðrir neyddir til þess, að eiga fasteignir með stórum veðskuldum, en þeir, sem hafa mikið umleikis, og þeir sem hafa líka miklar tekjur og mega við því að eitthvað sé á þá lagt.

Þá vildi háttv. þingmaður slá varnagla við orðalaginu á br.till. á þgskj. 260. Eg hygg, að óþarfi sé að kvíða út af því, þótt þessu væri slegið föstu, enda er það ekki ný skoðun, sem þar kemur fram, og eg hygg jafnvel að engum blandist hugur um það, að landssjóður sé inn rétti eigandi að kirkjujörðum. Hvernig þeim eignarrétti er beitt í framkvæmdinni, er annað mál.

Ræðu háttv. 1. þm. Rvk. (L. H. B.) vil eg ekki vera að svara neitt til muna. Hann gat þess, að hún væri ekki haldin fyrir kjósendur, en hygg þó að þeim, sem heyrðu pá ræðu, muni ekki þykja það fráleitt, að það hafi verið kjördæmið, sem hann hafði í hyggju. Lárus H. Bjarnason: Á eg að sinna á móti kjósendum mínum að röngu máli?). Enginn sagði það, en dæmin, sem háttv. þm. valdi, bentu á það, hvað fyrir honum vakti. Hann tók dæmi, sem voru til þess fallin að vekja grun um það, að hér sé verið að beita ranglæti, en honum láðist að taka önnur dæmi, sem mundu Sýna, að hér er einungis verið að taka upp aðra og réttlátari reglu en verið hefir.

Hann var alveg búinn að steingleyma þessum frumv., og er það harla undarlegt, því að í fyrra, þegar milliþinganefndin frá 1911 kom fram með einkasölufrumvörpin, þá hélt hann enn þá meira glymjandi ræðu en nú, bæði í Fram og á þingmálaf., og þá var aðalmótbára hans gegn þeim frumv. sú, að þeirra þyrfti alls ekki við, það væru til Svo ágæt frumv. frá milliþinganefndinni frá 1907, t. d. um fasteignarskatt og tekjuskatt. Og á fundi í »Fram« sagði hann, að það væri einsætt að taka þeim frumv., og hafði reiknað út, hve góðar og réttlátar þær tekjur væru. Nú er hann búinn að steingleyma þeim !

Eg sagði, að eg ætlaði ekki að fara að rökræða þetta við hann. Það mundi verða þýðingarlaust. En út af dæminu, sem hann tók um kaupstaðarborgarann vil eg leyfa mér að benda á það, að það er eitthvað ið réttlátasta í þessu frumv., að bæta úr því ranglæti, að menn geti legið með eign eins og lóðir í kaupstöðum alveg gjaldfrjálsar, án þess að borga nokkuð af þeim til almennings þarfa. Það má alt af reyna þyrla upp öðru eins ryki og því, að þetta Sé ranglæti, en það munu allir fljótt sjá, að Slíkt er ekki annað en kerlingareldur, og að tilgangur frumvarpsins er enginn annar en sá að bæta úr þeirri eyðu, sem hér er í löggjöfinni. Það er enginn, sem biður fátæklinga að liggja með stórar og dýrar lóðir, hlaðnar veðskuldum, og þeim er engin nauðsyn á því. Þeir geta selt þær. En ef þeir vilja speculera í þeim, þá eru þeir heldur ekki of góðir til þess að gjalda af þeim skatt. Til atvinnurekstrar eru þær ónauðsynlegar fyrir þá, sem ekki hafa verksmiðjur eða önnur slík stórfyrirtæki með höndum, og öll þessi átakanlegu orð um að sjúga út alþýðuna o. s. frv. eiga sér engan stað. Það er ekki heldur svo hátt gjald þetta, að eins 2 af þúsundi.

Viðvíkjandi dæminu um landbóndann er það að athuga, að hv. þm. hefir gleymt að geta þess, að tekjuskatt ber að greiða af eign, sem mundi vera metin til afgjalds 150–200 kr., svo að þá hefðu bæzt þar við 6–8 kr., og ef að háttv. þm. hefði munað eftir þessu, þá hefði hann komist að annari niðurstöðu.

Hann sagði, að eg hefði sagt, að fjárhagurinn væri góður. Já, það er satt — á þessu fjárh.tímabili. Eg hefi hugsað, að þar verði ef til vill einhver afgangur. En eg hefi líka bent á hitt, að í framtíðinni muni verða nauðsynlegt að auka tekjur landssjóðs, ef ekki á að hefta nauðsynlegar aðgerðir. Það er enn ekki fullreynt, hversu mikið vörutollurinn gefur mikið af sér, og þó að engu yrði bætt Við útgjöldin, sem áætluð hafa verið, þá er alls óvíst að afgangur verði til muna. En ef þar á ofan á að fara að hrúga mörg hundruð þús. kr. gjaldabyrgðum og ábyrgðum á landssjóð, þá þarf líka eitthvað að koma í Skarðið. Það er ekki hægt að taka úr loftinu 100 þús. kr. til Landsbankans, eða fé til að standa á móti ábyrgð á öllu því, sem bankastj. kann að lána út. Það hlýtur að vera meiningin, að Alþingi leggi fram fé til þessa og annars slíks, og þá þarf einhver lög fyrir því, hvar á að taka það.

Eg legg miklu meiri áherzlu á það, sem aðrir háttv. þm. Segja um þetta mál, en það, sem háttv. 1. þm. Rvk. (L. H. B ) segir, þrátt fyrir allan ofsa hans og tilraunir til þess að sýna, að hér sé verið að beita rangsleitni. Aðrir háttv. þm., sem talað hafa, hafa játað, að hér sé um athugavert mál að ræða, og eg álít það fullkomna óhæfu, ef á að drepa það hér fyrir æsingaárásir, án þess að háttv. Ed. fái tækifæri til þess að láta uppi álit sitt um það.