04.08.1913
Neðri deild: 25. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 694 í C-deild Alþingistíðinda. (489)

7. mál, fasteignaskattur

Benedikt Sveinsson:

Það eru að eins örfá orð út af ræðu hv. 2. þm. G.-K. (Kr. D ). Það er komin fram br.till. á þgskj. 260, þar sem það er tekið fram, að landesjóður sé réttur eigandi allra kirkna og kirkjueigna, að bændakirkjum undanskildum. Eg hefi hugsað mér að greiða atkvæði með þessari br.till., því að eg álit rétt að slá föstum þeim skilningi, að landssjóður sé réttur eigandi þessara eigna, þannig að skýr yfirlýsing þingsins hafist þegar ríki og kirkja verða aðskilin, sem margar raddir hafa alment óskað á seinustu árum. Eg hefi altaf álitið, að þetta lægi í hlutarins eðli, vegna þess að ríkið tók þessar eignir af kaþólsku kirkjunni og er því réttur eigandi þeirra, þó að það af góðmennsku sinni hafi leyft þjóðkirkjunni að hafa not af þeim. En jafnóðum og þjóðkirkjan er lögð niður, hverfa eignirnar að sjálfsögðu aftur til landssjóðs — hins rétta eiganda. Með þessum skilningi á tilgangi br.till. mun eg greiða henni atkvæði. Aftur á móti vona eg, að ekki sé tilgangurinn að að samþykkja þetta að eina til þess að það verði sem leppur fyrir prófasta og presta til þess að losa þá við lögmælt gjöld.