04.08.1913
Neðri deild: 25. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 706 í C-deild Alþingistíðinda. (514)

73. mál, skoðun á síld

Frams.m. (Kristinn Daníelsson):

Eg þarf ekki að vera langorður um þetta mál, það er ekki neitt stórmál. Það hefir komið í ljós við reynsluna um þessi lög um skoðun á síld, að þau þurfa breytinga við, og get eg vísað til nefndarálitsins um þær breytingar, sem lagt er til að gerðar séu.

Aðal-breytingin er fólgin í því, að áður var skoðunin að eins bundin við sérstakt svæði af landinu, en nú er farið fram á, að hún sé látin ná yfir það alt. Svo eru aðrar smábreytingar, sem að eins standa í sambandi við þetta. Eg þarf ekki að orðlengja þetta, að eina leyfa mér að geta þess, að þar sem stendur 2. gr. í frumv., er prentvilla; það á að vera 3. gr.