05.08.1913
Neðri deild: 26. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 717 í C-deild Alþingistíðinda. (529)

43. mál, samþykktir um hringnótaveiði

Framsögum. meiri hl. (Stefán Stefánsson):

Nefndin, sem kosin var í þetta mál, hefir ekki getað fylgst að. Að vísu er nefndin — að flutningamanni undanskildum — nokkurn veginn á einu;máli um, að fylgja ekki frumvarpinu eins og eg og háttv. 1. þm. Skagf. (Ó. Br.) fluttum það fyrst inn í deildina, en svo skiftast leiðirnar. Meiri hl. nefndarinnar vill fylgja þeirri stefnu, sem kemur fram í frumv., að undir einstökum tilfellum sé hægt að takmarka hringnótaveiði í landhelgi. Þetta er samkvæmt þeim undirbúningi, sem málið hefir fengið í héraði, og eg flutti málið inn á þing eftir tilmælum kjósenda minna. Þar hefir málið verið rætt ítarlega og athugað, enda hefir það mesta þýðingu fyrir Eyjafjörð. Meiri hluti nefndarinnar lítur því svo á, að tiltækilegt sé að leyfa sýslunefndum Eyfirðinga og Þingeyinga að banna hringnótaveiði innan við Hrísey. Þetta byggist á því, að um ytri endamörk Hríseyar þrengjast fjörðurinn mjög mikið, og þar af leiðandi enn meiri líkindi til þess að hringnótaveiðin hafi spillandi áhrif á veiðiskapinn á firðinum. Það þykir því rétt að gera þessa tilraun til að vita, hvort þverrandi veiðiskapur á síld og öðrum fiskafla á Eyjafirði muni stafa af völdum hringnótaveiðarinnar, er þar hefir verið atunduð. En það eru allar líkur til, að álit Eyfirðinga á þessari veiðiaðferð sé rétt, því að það fer saman sá tími sem veiðiskapur þverrar að miklum mun og þessi veiðiaðferð er fyrst notuð. Eg segi, að þetta sé tilraun, því að ef eg man rétt, standa fiskiveiðasamþyktir ekki lengur en 10 ár. Og hér yrði það sennilega skemri tími, því að eg get trúað, þó að Eyfirðingar gerðu slíka samþykt, að þeir létu hana ekki gilda lengur en 4–5 ár, ef reynslan sýndi, að hún hefði enga verulega þýðingu. Þeir skoða sig ekki neina fiskifræðinga, en vilja hins vegar láta reynsluna skera úr. Annars hefi eg gengið svo langt til samkomulags í þessu máli, að eg sé ekki að lengra verði gengið, þar Sem eg hefi ekki einungis gengið frá frumvarpinu í sinni upphaflegu mynd, að sýslunefndum sé leyft að banna síldveiði með hringnótum í landhelgi, heldur hefi eg og fallið frá áliti Eyfirðinga og gengið inn á að setja takmarkalínuna miklu innar heldur en þeir höfðu komið sér saman um, því samkvæmt tillögum okkar meiri hluta nefndarinnar leggjum við til, að hún sé þvert yfir fjörðinn um norðurenda Hríseyjar, og sé gerð nokkur tilraun í þessu máli, þá get eg ekki séð að minna verði heimtað. Það hagar svo til, að fyrir utan þessa umræddu takmarkalínu er afarmikið landhelgissvæði, sem eg hefði líka viljað friða fyrir yfir yfirgangi. Og kunnugt er mér um það, að þeir menn eru til út með Eyjafirði, sem hafa komið sér upp hringnótum til mótorbátaveiða, en hafa þó svo mikinn áhuga á þessu máli, að þeir vilja heldur, að þessi veiðiaðferð sé bönnuð til yztu endimarka Eyjafjarðar, heldur en að hún haldi áfram nágrönnum sínum og öllum fjöldanum til skaða.

Skal eg svo snúa mér að aðalatriðinu, sem mér virtist koma fram sem mótbára gegn frumv. Við 1. umr., sem sé þeirri, að innlendir hringnótaveiðarar hefðu varið landhelgina fyrir útlendum yfirgangi. Útlendir hringnótaveiðarar hafa aldrei, svo mér sé kunnugt, fiskað fyrir innan Hrísey, svo að sú mótbára hefir lítið að segja, eins og frumvarpið kemur nú frá meiri hlutanum í nefndinni. Eg hygg því, að þessi aðalástæða gegn frumv., er kom fram frá 1. þm. S.-Múl. (J. Ól.). sé fallin með br.till., því utan við Hrísey er afarstórt landhelgissvæði, sem þau innlendu skip þá óefað mundu verja, jafn vel enn betur en áður, því á þeim stöðvum mundu þau, þá aðallega verða að veiðum.

Eg vona, að háttv. deild taki þessu máli vel, eina hóglega og í sakirnar er farið, og leyfi því að ganga til 3. umr.. og jafn vel áfram til háttv. Ed. Í það minsta hefi eg þá trú, að þeir bændur, sem sæti eiga hér í deildinni, greiði ekki atkvæði á móti málinu, því það er sannarlega í eðli sínu svo vagið, að það er okkar bændanna að styðja það. Hér er líka að eins að ræða um lagaákvæði, sem máske gildir að eins um nokkurn tíma, en ekki bann, sem gildi um aldur og ævi, og virðist því ekki vera mikið í húfi, hvernig sem málið er skoðað.