05.07.1913
Neðri deild: 4. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í C-deild Alþingistíðinda. (53)

14. mál, vitagjald

Ráðherrann (S. H.):

Þetta frv. komið fram út af málaleitunum frá ensku stórfélagi í London, sem hefir tekið að sér að gæta hagsmuna sjómanna í fjarlægum höfum. Sneri það sér fyrst til Board of Trade, sérstaklega með kvörtunum yfir því, að hér væri ekki gerð nein undanþága frá vitagjaldi fyrir skip, sem leita hafnar í neyð. Brezka stjórnin sneri vér síðan til utanríkisráðherra Danaveldis og hann aftur til ráðherra Íslands. Þáverandi ráðherra lét í ljósi, að stjórnarráðið mundi geta lagt það til við næsta reglulega Alþingi, að undanþágan yrði veitt.

En auk þess sem hér er farið fram á, að skip, sem leita hafnar í neyð, séu undanþegin vitagjaldi, er ætlast til, að svonefnd skemtiferðaskip séu það einnig.

Ástæðan fyrir því er sú, að stjórnarráðinu hefir verið tjáð, að ferðamannaskip, þau sem hér hafa komið á sumrin að undanförnu, muni ekki sjá sér fært að halda þeim ferðum áfram, ef þetta gjald verður heimtað af þeim. Skipin eru afarstór að tonnatali og gjaldið því hátt, alt að 2000 kr. eða þar yfir. Jafnvel þó að eg liti svo á, að þessi skip geti eigi talist til inna eiginlegu lystiskipa — þau eru í rauninni farmskip, þar sem farmurinn er lifandi fólk hefir stjórnin þó viljað verða við óskum kaupmanna og annara atvinnurekenda, sem hagsmuni hafa af viðkomum þessara skipa, og taka undanþágu fyrir þau upp í frumvarpið, enda er það auðsætt, að lítil hagnaðarvon er af þessu gjaldi, ef ferðirnar leggjast niður fyrir það, en hins vegar talsverður hagnaður fyrir landsmenn. Og svo er það óbeinlínis gróði fyrir landið, að sem flestir sjái það og kynnist því.

Aðalatriðið er þó, að undánþágan verði veitt þeim skipum, er leita hafnar í neyð. En til þess að það ákvæði yrði ekki misnotað, virtist nauðsynlegt að skýra það í lögunum sjálfum, hvað við væri átt með orðunum: leita hafnar í neyð, og því binda undanþáguna við það, að skipin leituðu hafnar til þess að flýja sjávarháska, eða til þess að fá bættar sjóskemdir, en mættu hins vegar ekki skila neinum vörum á land eða í önnur skip, né taka vörur frá landi eða úr öðrum skipum.