05.08.1913
Neðri deild: 26. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 723 í C-deild Alþingistíðinda. (532)

43. mál, samþykktir um hringnótaveiði

Framsögum. minni hl. (Matth. Ólafsson):

Háttv. framsögum. meiri hl. (St. St.) hefir orðið talsvert heitur út af þessu máli. Eg hélt að við gætum rætt það rólega og hitalaust. Út af því sem eg sagði, að þetta mál væri ekki á neinu viti bygt, skal eg taka það fram, að eg held því fram enn, og byggi það ekki á neinni þekkingu á Eyjafirði, heldur á því að reynslan hefir sýnt það. Eg hefi alið allan minn aldur við sjávarsíðuna og er því vel kunnugur öllu því, er að sjávarútvegi lýtur. Hann sagði, að eg hefði ekki sagt neitt nýtt. Það var þó nýtt í því sem eg sagði, að fiskiveiðasamþyktir hefðu alt af reynst hégóminn einber. Þær hafa venjulega orðið til þess eins að hefta framtaksmanninn til einskis gangs fyrir hinn. Og venjulega hefir farið svo, að áður en samþyktartíminn var liðinn, þá hefir enginn vitað út né inn, það hefir verir hætt að sekta fyrir brot, og menn hafa jafnvel talið sjálfsagt að brjóta samþyktina. Þetta er reynslan, hvað sem hv. framsögum. meiri hl. (St. St.) segir. Hann var að tala um, að þetta væri mál fjöldans. En hér stendur fjöldi á móti fjölda. Við vitum, hverjum við sleppum, en ekki hvað við hreppum. Við vitum að við sleppum stórhagnaði fyrir þá sem stunda hringnótaveiði, og við vitum að við sleppum atvinnu fjölda fólks á Akureyri. Hann gat ekki fundið neitt nýtilegt í ræðu minni, og eg bjóst nú varla við því. Eg reyndi að sannfæra hann í nefndinni, en það tókst ekki, og eg býst ekki við að það takist á þessu þingi og leiði minn hest frá því. En hér er mikið í húfi, miklu tapað ef þessar samþyktir komast á, og ekkert hægt að fá í staðinn, nema ánægjuna af því að hindra aðra í þessum atvinnuvegi. Eg benti honum á það í nefndinni, að honum væri betra að kenna sveitungum sínum að afla sér veiðarfæra eftir siðaðra manna hætti.