05.08.1913
Neðri deild: 26. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 726 í C-deild Alþingistíðinda. (536)

43. mál, samþykktir um hringnótaveiði

Magnús Kristjánsson:

Eg hefi sneitt hjá að tala um þetta mál, vegna þess að við 1. umr. málsins komu fram mótmæli á móti því, sem féllu saman við mína skoðun. Því talaði eg ekkert þá, og líkt stendur á nú. Eg þykist nokkurn veginn sjá, hvernig fara muni um þetta frumv. og vil því heldur ekki nú leggja mikið til málanna.

Það var að eins út af því sem hæstv. ráðherra (H. H.) sagði, að eg tek til máls nú. Hæstv. ráðherra benti á það, að rétt væri að setja inn í lögin ákvæði um það, að bæjarstjórn Akureyrar eigi hlut í að semja reglur um þennan hringnótaveiðiskap. Þetta er ekki nema eðlilegt og sjálfsagt, ef málið á annað borð kemst svo langt. Því að bæjarfélögin eiga að mínu áliti að vera jafn rétthá og Sýslufélögin. Eg var áður ráðinn í því að koma að breytingu í þessa átt, ef nokkrar líkur væru til þess, að málið næði fram að ganga, því það getur varla komið til mála að gera slík lög svo úr garði, að nokkurt þessara stjórnarvalda, út af fyrir sig, geti gert samþyktir um þetta, að hinum nauðugum, sem hér eiga hlut að máli.

Vegna þess að eg efast um, að þetta mál nái fram að ganga., þá vil eg ekki fara út í einstök atriði þess. Vil eg að eins geta þess, að eg að mestu leyti felst á skoðanir háttv. framsögum. minni hlutans.