05.08.1913
Neðri deild: 26. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 737 í C-deild Alþingistíðinda. (545)

50. mál, vegir

Ólafur Briem:

Það sem gerir það að verkum, að eg get ekki verið með þessu frumv., er það, að hér á að fara að slíta ákvæði út úr lagabálki, sem á sínum tíma var vandlega hugsaður og undirbúinn af stjórninni og verkfræðingi landsins. Eg verð að telja mjög var hugavert að breyta hér nokkru, nema sama meðferð verði viðhöfð og upphaflega var höfð við setningu laganna.

Það hefir nú komið fram, að málið hefir verið borið undir landsverkfræðinginn og honum ekki getist að því.

Framsögum. meiri hlutans (Kr. D.) lagði áherzlu á, að nauðsynlegt væri að hliðra hér til, því að vegurinn væri hlutaðeigandi sýslufélfélögum, sem sé Gullbringu og Kjósar sýslum, til mikillar byrði. Þetta getur vel verið, en þá verður að líta á það, að fá eða engin sýslufélög á landinu hafa fengið eins mikinn styrk til vegalagninga og einmitt þessi. Það, út af fyrir sig, er vel skiljanlegt, að háttv. flutningm. frumv. (Kr. D.) sé áfram um að fá þessu framgengt, því það er svo sem eðlilegt að hann vilji losa sitt hérað við talsverðan kostnað og koma honum á landssjóð. En það er ekki rétt að ætlast til þess að þingmenn líti alment þeim augum á málið.

Eg skal alls ekki neita því, að viðaukatill. háttv. þm. Dal. (B. J.) sé ef til vill á góðum rökum bygð, á svo góðum rökum, að ef farið væri að breyta vegalögunum á annað borð, þá gæti vel verið. að rétt væri að taka hana til greina. En líklegt er að svo standi á víða um land og fyrir þá sök er það nauðsynlegt að hafa heildaryfirlit yfir alla vegi á landinu áður en nokkur breyting er gerð á vegalögunum. Það heildaryfirlit hefir enginn nema verkfræðingur landsins, því þó að einstakir þingmenn kunni að hafa farið viða um, þá skortir þá alt til þess að geta kynt sér málið svo sem nægilegt er. Fyrir því verð eg að telja það nauðsynlegt samræmisins vegna að vegalögin séu athuguð í heild sinni, áður en tekið er til að breyta þeim í einstökum atriðum.