05.08.1913
Neðri deild: 26. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 746 í C-deild Alþingistíðinda. (554)

90. mál, hafnarlög fyrir Vestmannaeyjar

Flutningsm. (Jón Magnússon):

Í Vestmannaeyjum er, eina og kunnugt er, mjög örðugt með siglingar, vegna þess, að þar er að heita má engin höfn, og þó eru þangað miklar siglingar. Þar er að vísu dálítill pollur, sem er nokkuð varinn sjávargangi, og kalla má höfn, en hann er svo grunnur, að ekki er þar fært inn nema bátum og mjög smáum þilskipum. Þessi litla höfn er skýld frá 3 hliðum, en einu megin, að austan, leiðir sjó inn á höfnina, svo að einatt er mikil hætta skipum, og sérstaklega mótorbátum sem á höfninni liggja.

Nú vill svo vel til, að það er tiltölulega auðvelt að bæta höfnina, fyrir fremur lítið fé, svo að við megi una. Það er nokkuð siðan að farið var að hugsa um hafnargerð í Vestmannaeyjum. Þegar í, þingunum 1905 og 1907 kom það til orða, hvort ekki væri rétt að landssjóður léti gera þar höfn. Eg minnist þess sérstaklega um einn fjárlaganefndarmanninn, sem nú er látinn, að hann v ar því máli mjög fylgjandi. 1908 var verkfræðingurinn Th. Krabbe fenginn til að rannsaka hafnarstæði í Vestmannaeyjum og athuga málið. Komst hann að þeirri niðurstöðu, að gera mætti nokkurn veginn góða bátahöfn þar fyrir um 40 þúsund krónur. Kom Vestmannaeyingum til hugar að fara þá leið, og leituðu til þingsins 1911 um aðstoð bæði til frekari rannsókna og ábyrgð fyrir láni. Þingið tók vel í þetta hvort tveggja. Fyrir það fé, sem þingið veitti þá til rannsóknarinnar, sem að vísu ekki reyndist nægilegt, var svo fenginn reyndur hafnarverkfræðingur erlendis frá, og hefir hann rannsakað málið, útbúið teikningar og áætlanir, er sendar hafa verið fjárlaganefnd. Eftir áætlun hans mundi hafnargerð í Vestmannaeyjum kosta tæpar 250 þús. kr., og er hafnarbótin þá í því fólgin, að gerðir séu garðar, er loka eiga að miklu leyti fyrir höfnina, þeim megin sem hún er ekki landi varin, að dýpka höfnina, svo að hún verði 5, 4 og 2 metra djúp um fjöru, og að byggja Skipabrú ásamt uppfylling o. fl.

Sýslunefndin fer fram á, að landssjóður leggi til 1/3 kostnaðar, en láni sýslufélaginu hitt, eða ábyrgist féð. Hún sýnir fram á það með góðum rökum, að fyrirtækið mundi borga sig, það þótt eigi fengist nema 1/4 hluti kostnaðarins úr landssjóði. Eg býst nú og við því, að þingið sjái Sér ekki fært að leggja til þessa fyrirtækis nema 1/4, eða rúm 60 þús. kr., í ramræmi við tillag til hafnargerðar í Reykjavík og hafnarbryggju í Hafnarfirði. Og það virðist ekkert ósanngjarnt, að landssjóður, sem svo að segja aldrei hefir kostað neinu til Vestmannaeyja sérstaklega, leggi nú einu sinni drjúgan skerf til þeirra, skerf, sem þó ekki nemur meiru en rúmlega eins árs tekjum landssjóðs þaðan.

Um nauðsynina til hafnar í Vestmannaeyjum er óþarfi að fjölyrða. Tryggileg höfn er þar óhjákvæmilega nauðsynleg vegna mótorbátaútgerðar þeirra, sem stöðugt fer vaxandi. Nú eru þar um 60 mótorbátar. Eg get ekki sagt um það, hversu mikils virði þeir eru nú, en eg býst Við að það megi telja þá 400–500 þúsund króna virði. Þessa eign þarf að tryggja. Þeir mega ekki lengur liggja svo að segja fyrir opnu hafi. Auk þess er höfnin mjög nauðsynleg ef svo færi, sem mörgum sýnist ráðlegt, að menn þar réðust í að breyta útgerðinni að einhverju leyti. Þá eru, eins og eg tók fram, miklar siglingar til eyjanna, og yrðu miklu meiri, ef ekki væri hafnleysið. Það kemur einatt fyrir þar, að vöruskip verða að bíða þar færis til að fá afgreiðslu mörgum vikum saman, og verða svo að fara þaðan við svo búið. Og það er svo sem ekki alt af því að heilsa, að þau geti legið róleg við Eyjarnar. Nei, stundum leita þau skjóls einhverstaðar undir Eyjunum, þess á milli verða þau stundum að leita til hafs. Höfn í Vestmannaeyjum væri og einatt mikils Virði fyrir fiskiskip, botnvörpunga, sem mundu nota höfnina afarmikið.

Höfn í Vestmannaeyjum er gott og nauðsynlegt fyrirtæki, ekki einungis fyrir Vestmannaeyjar, heldur og fyrir nærliggjandi sýslur, og það má ekki dragast, enda kostnaðurinn ekki svo, að hægt sé að bera því við, að landssjóður sé ekki fær um að hlaupa undir baggann. Málaleitun sýslunefndarinnar í Vestmannaeyjum, sem vill ráðast í fyrirtækið, um hjálp landasjóðs til að koma fyrirtækinu á, var send landstjórninni, er aftur beindi henni til fjárlaganefndar, eins og rétt var, því að hér er, að því er til Alþingis kemur, aðallega um fjármál að ræða, sem eðlilega kemur fyrst til fjárlaganefndar um að sýsla. En í sambandi við fjárframlagið koma ýmis atriði hafnargerðinni viðvíkjandi, sem lög þarf að setja um. Þess vegna hefi eg leyft mér að bera þetta frumv., sem sýslunefndin í Vestmannaeyjasýslu hefir samið, fram hér, og tel eg eftir öllum atvikum réttast, að því verði vísað til háttv. fjárlaganefndar.

Geri eg það að tillögu minni, að svo verði gert, eftir að búið er að vísa málinu til 2. umr.