05.08.1913
Neðri deild: 26. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 751 í C-deild Alþingistíðinda. (557)

85. mál, lögreglusamþykkt og byggingarsamþykkt fyrir Vestmannaeyjasýslu

Flutningsnr. (Jón Magnússon):

Það væru aðrar leiðir til þess að fá því framgengt, sem frumv. þetta fer fram á, t d. sú; að veita Vestmannaeyjum kaupstaðarréttindi. Það kom einnig til orða hjá sýslunefndinni í Vestmannaeyjum, sem hefir beðið mig um að flytja mál þetta. Auðvitað er nú svo mikill fjöldi saman kominn á litlum bletti í Vestmannaeyjum, að ekki væri í sjálfu sér neitt því til fyrirstöðu, að Vestmannaeyjum væru veitt kaupstaðarréttindi. En nefndin hefir samt ekki að svo stöddu viljað fara fram á þetta kostnaðar vegna. Þá hefði verið vegur til þess fyrir eyjarnar, að fá heimild til þess að setja lögreglusamþykt í kauptúninu með því að skilja það úr hreppnum eins og hann nú er og gera það að sérstöku hreppsfélagi, en það er Eyjamönnum ekki ljúft. Eins og nú standa lög til, má að vísu gera byggingarsamþykt fyrir Vestmannaeyjar. En hvort er væri að ræða um lögreglusamþykt eða byggingarsamþykt, þá er það eftir núgildandi lögum hreppsnefnd, sem á að hefjast handa og semja Samþyktina., en ekki Sýslunefnd. Það sem hér er farið fram á, er því í stuttu máli það, að sýslunefnd Vestmannaeyjasýslu fái í þessum málum sama rétt, sem bæjarstjórn í kaupstað.