05.08.1913
Neðri deild: 26. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 763 í C-deild Alþingistíðinda. (571)

96. mál, heimild fyrir veðdeild Landsbankans

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Eg ætla að leiðrétta talsvert mishermi, sem háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) gerði sig sekan í. Hann sagði, að bankinn lánaði mjög lágt út á jarðir, en lánaði meira út á húseignir. Ef hv. þm. hefði nent að kynna sér reglugerð bankans, þá hefði hann séð, að þetta er alveg rangt. Bankinn fer mjög varlega í það að lána út á húseignir, lánar einmitt tiltölulega miklu hærra út á jarðir. Það er því algerlega rangt og illa gert að vera að kasta fram öðru eins og þessu, sem er sannleikanum alveg gagnstætt. Eg tala hér ekki út í bláinn, því að sakir stöðu minnar sem gæzlustjóri er mér nákunnugt um þetta.

Það er reyndar ávalt óþarfi að svara háttv. 1. þm. Rangv. (E. J.). Það er líka búið fyrir nokkurum dögum að svara því sem hann sagði áðan. Þá var því kastað fram, að kostnaðurinn við bankann hefði aukist allmikið á síðustu árum. Þá þegar var sýnt fram á það með skýrum rökum og ljósum tölum, að kostnaðurinn hefir ekkert aukist á síðustu 5–6 árum.

Hvað störf bankans snertir, þá álít eg að ekki sé til neins að vera að skýra hv. 1. þm. Rangv. (E. J.) frá, hver þau eru. Eg held að hann mundi ekki bera meira skyn á það en kötturinn á stjörnufræði. Annars var hann hér inni í deildinni fyrir nokkrum dögum, þegar þetta mál var skýrt, að minsta kosti var hann sýnilega nálægur í holdinu hér inni þá; en sálin hefir væntanlega að vanda verið einhverstaðar úti á þekju.