05.08.1913
Neðri deild: 26. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 764 í C-deild Alþingistíðinda. (572)

96. mál, heimild fyrir veðdeild Landsbankans

Jón Magnússon:

Það gæti verið ástæða til þess að bankinn hefði leyfi til að setja líkt ákvæði og þetta frumvarp fer fram á í skuldabréf sín. En eg held að bankinn ha8 það leyfi eftir núgildandi lögum, svo að óþarfi sé að samþykkja slíkt ákvæði gagnvart lánum í framtíðinni. En ef meiningin með frumvarpinu er sú, að bankinn skuli hafa leyfi til að leggja kostnað við skoðun á þá sem þegar hafa fengið lán úr bankanum með ákveðnum kjörum; þá er eg hræddur um að Alþingi sé í raun og veru ekki fært um að gefa slíka heimild. Með lántökunni er í raun og veru kominn á samningur milli bankans og lántakanda, og á þann samning, sem er ritfestur með skuldabréfinu, er ekki rétt að ganga. Sá réttur, sem lántakendur hafa samkvæmt skuldabréfinu, verður ekki af þeim tekinn með réttu.

En þyki rétt að leggja þennan kostnað á lántakendur framvegis, þá gæti komið til mála að setja ákvæði í þessa átt sem viðbót við lögin um 3. flokka veðdeildárbréf, og gæta þess svo, þegar næstu veðdeildarlög verða samþykt, að taka samskonar ákvæði upp í þau.