07.07.1913
Neðri deild: 5. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í C-deild Alþingistíðinda. (58)

15. mál, laun íslenskra embættismanna

Ráðherrann (H. H.):

Eg vil fyrst leiða athygli háttv. þingdeildarmanna að því, að þótt þetta frv. heiti frv. til laga um laun íslenzkra embættismanna, þá grípur það ekki yfir alla embættismenn þessa lands, heldur að eins þá, sem hafa umdæmi um alt landið. Frv. víkur ekki frá þeim grundvelli, sem launalögin eru bygð á, og nær að eins til nokkurra embættismanna, sem búsettir eru hér í Reykjavík.

Tilefnið til þess að frv. er fram komið, er það, að í fyrra haust kom sendinefnd til stjórnarráðsins frá kennurum mentaskólans til að bera fram kvartanir um, að ekki væri lengur unandi við þau launakjör, sem þeir ættu við að búa. Kringumstæðurnar væru orðnar svo breyttar nú frá því sem var þegar launin voru ákveðin, að óhjákvæmilegt væri að hækka þau.

Skömmu seinna kom frá þeim ítarlegt erindi, dags. 12. Des. 1912, þar sem þeir beiðast launahækkunar og eru ástæðurnar fyrir því greinilega skýrðar í bréfinu.

3. Febr. í ár kom svo sams konar erindi frá dómurunum í landsyfirréttinum, og skora þeir á stjórnina að koma því á framfæri við Alþingi, að breytt yrði svo launakjörum þeirra, að þau geti orðið í samræmi við tilætlun gildandi launalaga og kröfur tímana.

Bæði þessi ítarlegu erindi munu verða lögð fyrir væntanlega nefnd.

Þessi launahækkun, sem hér er farið fram á, er bygð á sama grundvelli eina og lög 1909 um laun háskólakennaranna. Með því frv. eru prentaðar mjög ljósar ástæður í skjalaparti þingtíðindanna 1909, bls. 186–192, samdar af forstöðumönnum prestaskólans, læknaskólans og lagaskólans. Eg leyfi mér að skírskota til þeirra athugasemda. Þar er mjög ljóslega og ómótmælanlega sýnt fram á, að laun embættismanna yfir höfuð séu orðin allsendis óviðunanleg, sérstaklega þó laun kaupstaðarembættismannanna. Þar er talið svo til, að peningar hafi fallið í verði um 10–15 °/o frá 1875 til 1889 og um 35—40% frá 1889 til 1908. Það sé nú helmingi dýrara að komast af hér í Reykjavik heldur en 1875 og þriðjungi dýrara heldur en 1889. Þar er sýnt, að laun, sem að þá voru ákveðin 4000 kr., samsvara nú 5600–5800 kr. að notagildi. Eftir því sem nú er ástatt með hækkun á öllum lífsnauðsynjum, sérstaklega á húsaleigu, matvælum, fötum o. fl., er sýnt. að maður, Sem samkvæmt lögum 1889 hefði nú 4000 kr. árslaun, myndi eins vel hafa komist af með 2400 kr. þá. Þetta er skýrt og ómótmælanlega rökstutt í skjali forstöðumannanna. Eg skal leyfa mér að lesa upp úr því nokkrar línur, er munu Vera stílfærðar eða eru í öllu falli undirskrifaðar af háttv. 1. þm. Rvk. (L. H. B.). Þær hljóða svo:

1400–2600 kr. eru þá árslaun þeirra manna, sem varið hafa 12–14 beztu árum ævinnar til að búa sig undir lífsstarf sitt. Og á þeim launum eiga þeir að framfleyta sér og hversu stórri fjölskyldu sem er. En þetta er bæði óhæfilega lág og óhæfilega ósanngjörn laun. Þau eru óhæfilega lág, því að mennirnir geta með engu móti framfleytt sómasamlegu lífi á þeim, og verða því annaðhvort að neita sér og sínum um marga nauðsyn, eða þá að Verja meira eða minna af starfskröftum sínum til að bæta launakjörin. En hvorttveggja er mjög skaðlegt fyrir skólana. Og launin eru ósanngjarnlega lág, því að hagur allra annara launamanna hefir batnað að sama eða líku skapi og peningarnir hafa fallið í verði, hvort heldur launamaðurinn fær laun sín hjá einstökum mönnum, einstakra manna félögum, eða jafnvel hjá sveitafélögum, og hver sem staða launamannsins er. Félagsstjórinn, verzlunarstjórinn, búðarþjónninn, hjúið og verkamaðurinn, fær hærri laun nú en áður. Vinnukonulaun hafa t. d. hækkað um 200% síðan 1875, og um 140% síðan 1889. Og öll þessi hækkun kemur beint eða óbeint niður á embættismanninum, eins og öðrum. — Landssjóður er þannig orðinn lakasti húsbóndinn. Við þetta skal eg bæta, að það eru ekki aðeins þessir prívat-starfamenn, sem nefndir eru, sem hafa fengið hærri laun en áður. Bændur og búalið, sem framfleyta sér af afurðum lands og sjávar, hafa einnig og engu síður fengið mikla tekjuviðbót. Ef menn lesa verðlagsskýrslur fyrir árið 1889, munu menn sjá, að þá var verðið á kjöttunnu 40 kr. Nú fá bændur 70–80 kr. fyrir kjöttunnuna. Þetta er ekki svo lítil búbót fyrir bóndann. Sama árið var skippund af stórum saltfiski selt á 33 kr. Nú er skippundið komið yfir 80 kr. Þá Var verð á bezta smjöri 65 au. pundið. Nú megum við þakka fyrir, ef Við fáum pund af góðu smjöri fyrir eina kr. eða 1 kr. og 10 au. Þá kostaði ullarpundið 62 aura, nú kostar það 1 kr.

Þar er ómögulegt að neita því, að bændur og búalið fá í peningum miklu meiri tekjur nú en áður, og sá mismunur er hlutfallslega miklu meiri en nokkrum hefir dottið í hug að gera á embættismannalaununum.

Mér var það fullljóst, eins og alt er í garðinn búið, að það myndi ekki vera vinsælt fyrir stjórnina að koma fram með þetta frv., enda hefir það ekki lítið verið notað mér til óvinsælda. Eg tala hér ekki um þá, sem í góðri trú hafa verið mótfallnir málinu, heldur hina, sem virðast hafa gert sér að leik, að segja ósatt frá málavöxtum að eina til þess að reyna að ófrægja stjórnina fyrir það, að hún hefir ekki viljað varna embættismönnum þeim, er hlut eiga að máli, þess, að þinginu gæfist kostur á að athuga málatað þeirra.

Eg hefi álítið þessar kröfur embættismanna á fullum rökum bygðar, og það er sannfæring mín að það væri óréttlátt að þegja þær í hel. Auk þess varð eg að líta svo á, að þingið 1909 hefði fallist á réttmæti þeirra, þegar það ákvað laun háskólakennaranna 3200–4800 kr. ári, og enn fremur fæ eg ekki betur séð en að þingið 1912 hafi viðurkent þörfina með röksemdum þeim, sem færðar voru fyrir því að hækka dagpeninga þingmanna um 66%

Eitt af því sem er einkennilegt við þetta land, eru eftirtölurnar við embættismenn landsins. Það er eins og það sé sjálfsagt til alþýðuhylli, að níða þá niður og titla þá „hálaunaða landsómaga“ o.s.frv. Fyrir fáum dögum sagði heiðvirður og góður bóndi hér austan úr sveitunum, að ekki aðeins embættismennirnir, heldur allir þeir Reykvíkingar aðrir, er sæti eiga á þingi, væru ómagar landsins og ættu engin laun að fá fyrir þingsetuna. Þeir lifðu á bændunum eins og sníkjudýr.

Þessi hugsunarháttur þekkist ekki í öðrum löndum. Þvert á móti, eftir að verkamannafélögin tóku að eflast, halda verkamenn og bændur því fram, að allir eigi að hafa rífleg eða viðunanleg laun fyrir störf sín, og þá einnig starfsmenn hins opinbera. Bændaflokkurinn á þingi í Danmörku hefir t. d. fúslega játað, að peningar hafi fallið í verði. Og jafnvel hefir sá sami bændaflokkur, sem þar hefir barist á móti aukinni herþjónustu, aukið að miklum mun laun herforingjanna. Það er mjög einkennilegt, að hér er það talið alþýðunnar áhugamál að vita það, að dagpeningar þingmanna voru hækkaðir lítið eitt vegna verðfalls peninganna. Annarstaðar er það alþýðunnar — demókratisins — áhugamál, að laun þingmanna séu hækkuð og höfð svo há, að þeir menn, sem þurfa að lifa á vinnu sinni á einhvern hátt, geti sér að meinlausu setið á þingi.

Í Danmörku hefir kaup þingmanna verið hækkað upp í 10 kr. á dag. Í Noregi hefir það um langan tíma verið 12 kr. á dag. Það þótti ekki nóg og í fyrra voru samþykt lög, sem veita hverjum Stórþingsmanni 3000 kr. laun á ári, hvort sem þingið stendur lengur eða skemur. Í Englandi, þar sem þingmenn til skamms tíma voru kauplausir, hefir nú þótt bera nauðsyn til að veita þeim föst laun — 400 pd. sterling = rúm 7200 kr. árlega hverjum. Og sú krafa kom ekki frá „lordunum“, heldur einmitt frá lægri stéttunum, og ástæðan er sú, að fyrirbyggja, að menn verði að draga sig í hlé fyrir þingsetu af þeirri ástæðu, að þeir hafi ekki efni á að sitja á þingi.

Hér á landi virðist málið horfa nokkuð öðruvísi við. Þó að það ef til vill sé hvergi hægt að segja með eins miklum rétti eins og hér í landi, að embættismennirnir séu blóð af bændanna og alþýðunnarblóði, beint og vanalega alveg milliliðalaust komnir úr sveitaheimilum víðsvegar um land, þá eru þeir samt skoðaðir hér sem einhver alveg sérstök stétt, eitthvert alþýðunni fjandsamlegt afl, sem lýðskrumarar halda áfram að telja kjósendum trú um að hafi það eitt fyrir stafni, að undiroka bændur og búalið og eta þá út á húsganginn.

Eg skal að svo mæltu ekki færa fram fleiri almennar ástæður fyrir frumv. Eg skal að eins geta þess, að flestir embættismenn. sem hér í frumv. eru taldir, eru líka taldir í gildandi launalögum frá 1875. Flestir þeirra hafa farið fram á hækkunina — þó ekki allir — t. d. ekki byskup. En ástæðan til þess að hann er samt sem áður tekinn með, er sú, að það virðist ekki unt samræmis vegna að láta hann einan vera launaðan eftir öðrum mælikvarða en aðra embættismenn í sama launalagabálki. Stjórninni virtist rétt, að gera jafnhátt undir höfði æðstu embættmönnum hinna þriggja aðalgreina, yfirmanns þjóðkirkjunnar, æðsta dómara og æðsta föstum landstjórnarembættismanni, sem er landritarinn. Þeir eru því allir settir með sömu byrjunarlaunum, 5000 kr., sem svo hækka á 15 árum smám saman upp í 6500 kr. Í samræmi Við þetta er sú breyting, að verkfræðingur og símastjóri eru settir með sömu launum og póstmeistari hefir eftir gömlu launalögunum. Stjórnin leit svo á, að réttast væri að gera öllum þessum samgöngumálaforstjórum jafn hátt undir höfði. Þeir hafa allir hér um bil jafn mikilsvarðandi ábyrgðarstörf með höndum og ættu því allir að vera fastir embættismenn með jafnháum launum.

Loks skal geta þess, að því er snertir þau auknu útgjöld landssjóðs, er þetta frumv. hefir í för með sér, ef það nær fram að ganga, að um það fylgir frv. skýrsla í athugasemdunum. Að eins skal eg leyfa mér að leiða athygli hv. þdm. að því, að þar sem talað er um alduraviðbót landritara, þá. er það miðað við byrjunarlaunin eins og þau verða eftir frumv., nfl. 1000 kr. lægri en þau eru nú, 5000 kr. í stað 6000 kr. eftir gildandi lögum. Hér er því ekki um neina persónulega launaviðbót að ræða, heldur helzt það sem er. Annars er skýrslan ekki sem greinilegust. Hún sýnir ekki, hve hárri upphæð laun allra þeirra embættismanna, sem frumvarpið hljóðar um, mundi nema eftir breytinguna, heldur hve miklu aldursviðbæturnar, sem lögin gera ráð ráð fyrir, og sérstakar hækkanir, mundu nema 1. Jan. 1914 miðað Við byrjunarlaun eftir frv., og hún sýnir einnig, að byrjunarlaun samtals eru lægri eftir frumv., heldur en núverandi laun sömu starfsmanna. Mér telat svo til, að ef lagafrumv. þetta yrði staðfest, þá mundu laun þau, sem nú nema samtals 65000 kr. á ári, hækka upp í 75200 eftir embættisaldri núverandi embættismanna, eða mismunurinn fyrstu árin vera um 10200 kr. á. ári.

Eg býst við, að skipuð verði nefnd í málið, og það tekið til rækilegrar íhugunar.