05.08.1913
Neðri deild: 26. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 778 í C-deild Alþingistíðinda. (590)

58. mál, hvalveiðamenn

Jón Ólafsson:

Herra forseti ! Eg verð að játa, að þessi samanburður, sem komið hefir fram við vínsölubannið, til stuðnings því, að landssjóður sé ekki akaðabótaskyldur hvalveiðamönnunum, er að mínu áliti ekki heppilegur, því að þetta ern hreint ekki sambærilegir hlutir. Og sama er um dæmið um Verzlunarmanninn, sem háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) var að tala um. Það er nokkuð. annað mál að svifta mann sérstökum rétti, sem hann hefir öðlast með því að borga ákveðið gjald, eða hitt að menn vegna lagasetningar verða að leggja niður einn eða annan atvinnurekstur. Þessir hvalveiðamenn hafa bara komið hingað til lands, fengið leyfi til að setjast hér að, þar með farið að reka þessa atvinnu, sem verið hefir öllum frjáls Þeir hafa engan sérstakan rétt fengið til hvalveiða, heldur að eins til að stunda hverja þá atvinnu, sem öllum landamönnum er heimil án sérstaka leyfis Breytist löggjöfin svo, að einhver atvinnuvegur, sem var öllum frjáls (»fri Næring«), verði bannaður, verða þeir auðvitað bótalaust að sæta sömu kjörum, sem aðrir landsmenn. Eitt sinn var t. d. fugladráp heimilt alt árið, svo var það bannað vissan tíma árs, sum fuglaveiði alveg bönnuð, en engum dettur í hug að neinn maður eigi rétt til skaðabóta fyrir það. Þeir verða því að sætta sig við að hætta atvinnurekstrinum, ef sett verða lög um friðun hvala. Háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) veit það, að við friðum fugla og hreindýr, en aldrei er talað um að greiða skyttunum skaðabætur, þó að þær hafi tjón af þessum friðunarlögum. Eg skal engan dóm leggja á það, hvort hvalirnir hafi áhrif á síldargöngur, eins og sjómenn hafa trú á. En eg veit, að hvalirnir fælast frá þeim stöðum, þar sem þeir eru skotnir. Reynslan hefir sýnt, að hvalurinn fælist skothríðina og legst frá þeim stöðvum, þar sem hann er ófriðaður, en legst aftur á móti að þeim stöðum þar sem hann er friðaður.

Eg vona að þetta frv. verði að lögum, og að þegar friðunartíminn er á enda, þá hlutist löggjafarvaldið til um, að landsmenn einir fái rétt til hvalveiða, en veiti ekki þennan rétt útlendum aðskotadýrum, því að þó að þeir byggi hér hús og setjist hér að um tíma, þá eru þeir í raun og veru ekki búsettir hér á, landi. Þeir hafa hér í seli á sumrin, en fara burt eins og farfuglarnir á haustin.

Eg sé ekki að nokkur maður hafi rétt . til skaðabóta, þótt hann verði að leggja niður þann atvinnurekstur, sem kemur í bága við lög landsins, hafi hann ekki keypt sér sérstakt leyfi. Þá kann hann að hafa ástæðu til að krefjast skaðabóta, en ella eigi.