05.08.1913
Neðri deild: 26. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 781 í C-deild Alþingistíðinda. (593)

58. mál, hvalveiðamenn

Lárus H. Bjarnason:

Að eins örfá orð. Því hefir verið skotið til lögfræðinganna hér í deildinni, að láta uppi álit sitt um, hvort óttast mundi þurfa skaðabætur úr landssjóði, gengi frumv. fram. Vil eg því í fáum orðum gera grein fyrir skoðun minni. Það er engum vafa bundið, að hver maður hefir rétt til þess að leita dómatólanna ef honum finst hann röngu beittur. En það er sitthvað, að fara í mál og vinna mál.

Beygur háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ól.) Við skaðabætur úr landssjóði til handa hvalveiðamönnum hlýtur að eiga annaðhvort við bætur fyrir hús og Vélar eða þá Við skaðabætur fyrir atvinnuspjöll. Bætur fyrir hús og vélar held eg að ekki þurfi að óttast, því að vitanlega yrði hvalamönnum ekki meinað að selja hús og vélar. Og lúti ótti háttv. þingmanns að bótum fyrir atvinnuapjöll, þá þarf tæplega að óttast þær. Að vísu er atvinnufrelsi hér á landi, en þó naumast þannig lagað, að löggjafinn megi ekki banna atvinnu, sem þyki skaðleg, enda dæmi slíks banns, og á eg þar við aðflutnings- og sölubannið á áfengi. Í annan stað er fullyrt, að hvalamenn hafi skaðast á veiðunum síðastliðin ár, og kæmi þá ekki til skaðabóta, þegar af þeirri ástæðu. 50. og 51. gr. stjórnarskrárinnar virðist og byggja á því, að »almenningsheill« eigi öðru fremur að ráða skipun atvinnumála.

Verð eg því að ljúka orðum mínum með því, að heldur vildi eg verja mál landssjóðs en sækja það af hendi hvalveiðamanna, enda er mér ekki kunnugt um að áfengissalar hafi farið í mál út af aðflutningsbanninu, og víst er um það, að góðir lögfræðingar hafa fremur latt þess en hvatt.