06.08.1913
Neðri deild: 27. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 802 í C-deild Alþingistíðinda. (614)

57. mál, girðingar

Ólafur Briem:

Það mun vera að kenna orðalaginu á breyt.till. minni að því er snertir skemdir á girðingum, að hún hefir vakið misskilning, eða að háttv. 2. þm. Rangv. (E. P.) hefir lagt í hana annan skilning en eg ætlaðist til.

Með ólögmætum girðingum átti eg ekki við, hvort strengirnir væru 3, 4 eða 5, heldur að girt væri yfir veg, sem ekki væri leyfilegt að girða yfir, eða að það vantaði hlið á girðingu, þar sem það væri lögboðið. Það getur verið, að eg hafi ekki tekið þetta nægilega skýrt fram.

Það sem fyrir mér vakti var að eina, að ef maður á ferðalagi kæmi að girðingu, þar sem hlið ætti að vera, en væri ekki, eða þá læst, þá ætti honum að vera frjálst að fara yfir girðinguna, og bæri hann þá ekki ábyrgð á þótt eitthvað færi úr lægi. (Eggert Pálsson: Þá koma sektir á hendur girðingareiganda). En ef maðurinn væri á brýnni ferð, t.d. að sækja lækni eða yfirsetukonu, þá kæmi honum það ekki að neinu haldi, þó lögbrjóturinn yrði sektaður, ef hann yrði að staðnæmast og gæti ekki haldið áfram ferð sinni.

Þetta væri ekki annað en nokkura konar neyðarvörn, þegar maðurinn væri hindraður á leið sinni af lögbrotum annara og sektir fyrir þau koma að engu haldi.