06.08.1913
Neðri deild: 27. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 814 í C-deild Alþingistíðinda. (625)

97. mál, fátækralög

Lárus H. Bjarnason; Það eru að eina örfá orð í viðbót Við ræðu samþingismanns míns, háttv. 2. þm. Rvk. (J. J.). Enda þótt fátækranefnd Reykjavíkur hafi átt frumkvæðið að frumvarpi. þessu, kvartað fyrst, þá er því ekki svo farið, að Reykjavík ein hafi sérstaklega gagn af því. Ef frumvarpið verður að lögum, þá verður það ekki að eins til að bæta hag Reykjavíkurbæjar, heldur allra kaupstaða og sjávarplássa á landinu. Eg játa það glaður, að frumvarpið dregur dálítið úr hag landaveitanna. Það tjáir ekki að mótmæla því, enda ekki ósanngjarnt meðan fólkið streymir úr sveitunum til kaupstaðanna og viðtökustaðurinn getur enga rönd við reist straumnum, en það geta sveitafélögin ekki nú, þar sem dvalarleyfi útheimtist ekki af hálfu þess sveitarfélags, sem maðurinn vill setjast að í.

Annars er alls ekki að ræða um að sleppa frumvarpinu út úr deildinni, heldur hitt, hvort leyfa skuli nefnd að meta þær ástæður, sem fram koma með og móti frumvarpinu. Og það vona eg að verði leyft, þar sem ekkert frumv. hefir enn verið borið svo upp í þessari deild, að því hafi ekki verið leyft að ganga til nefndar.

Að við háttv. 2. þm. Rvk (J. J.) og eg viljum hafa sérstaka nefnd, en ekki vísa málinu til sveitastjórnarnefndarinnar, kemur til af því, að hvorugur flutningsmanna er í þeirri nefnd, en ekki nema eðlilegt, að annar þeirra eigi sæti í væntanlegri nefnd, til þess að geta borið hönd fyrir höfuð frumvarpinu, ef á það yrði ráðist. Eg styð því þá till., að málinu verði vísað til 2. umr. og sérstök nefnd kosin til að athuga það að umr. loknum.