06.08.1913
Neðri deild: 27. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 816 í C-deild Alþingistíðinda. (627)

97. mál, fátækralög

Kristinn Daníelsson:

Þegar þetta var í lög tekið, að dvalarsveit skuli borga 1/3 hluta af kostnaði við þurfaling annarar framfærslusveitar, var eg þegar í miklum efa um það, að það væri nokkur réttarbót. Að minsta kosti hefir mín reynsla verið alt önnur. Eg hefi heyrt fróða menn segja, að þetta ákvæði muni vera sniðið eftir dönskum lögum. En þar er alt öðru máli að gegna, þar sem vegalengdir eru miklu minni og stórum greiðfærari samgöngur, svo að jafnan má flytja þurfaling þegar í stað til framfærslusveitar sinnar.

Eg er ekki samdóma háttv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.) í því, að þessi »réttarbót« geri minni hrakninga á þurfalingum. Það er þvert á móti svo, að þegar dvalarsveitin verður að borga 1/3 af öllum kostnaði, þá vill hún auðvitað losna við þurfalinginn sem fyrst, jafnvel þótt honum væri það hollast að vera kyr.

Líka getur það komið fyrir, að alls ekki sé hægt að koma manninum burtu vegna lasleika, svo að dvalarsveitin verði að sitja uppi með hann og borga þó 1/3 hluta alls kostnaðar á hverju ári, þótt henni af orsökum, sem hún er ekki völd að, sé fyrirmunað að neyta réttar síns að flytja þurfaling af sér. Þetta er mjög ósanngjarnt. Eg þekki slík dæmi. Það var þurfamaður, sem var karlægur, og læknir bannaði að flytja hann burtu. Sveitin sat uppi með hann árum saman og varð að borga 1/8 hluta af uppihaldi hans.

Því hefir verið haldið fram, að kaupstaðirnir, og þá sérstaklega Reykjavík, hefðu fjárhagslegan hag af þessu frumvarpi. Eg get ekki vel lagt þetta á met, hvorum megin hagurinn yrði, en aðalatriðið er, að eg álít það sem nú er tæpast réttiátt meðan framfærsluskyldan stendur á þeim grundvelli, sem nú er. Eg veit ekki, hvort Reykjavík er bezt fær um að bera sveitarþyngsli, og þó svo væri, álít eg ekki réttlátt að láta hana fremur en aðra bera meira en sitt eigið. Eg skal ekki fara neitt út í einstakar greinar á þessu stigi málsins, en eg held að það sem felst í 2. gr., sé þegar í lögum nú, að sveitarstjórn megi koma af sér þurfaling, þegar hann er búinn að þiggja 100 kr., ef flutningurinn er þá ekki bannaður af lækni. Eg held að það sé æskilegt, að þetta frumv. verði athugað í nefnd. Mér datt í hug sveitarstjórnarnefndin, af því að málin eru svo skyld, en mér er það ekki fast í hendi, og eg get falist á að ný nefnd verði kosin. Og eg geri það beint að tillögu minni, að því verði vísað til nefndar, eg vil ekki að það fari nefndarlaust út úr deildinni.