07.07.1913
Neðri deild: 5. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í C-deild Alþingistíðinda. (64)

15. mál, laun íslenskra embættismanna

Þorleifur Jónsson:

Eg skal ekki verða langorður, því að margt hefir þegar verið tekið fram af því sem mér bjó í huga.

Þegar sá orðrómur barst út um land, að stjórnin hefði í hyggju að leggja frumv. fyrir þingið þess efnis, að bæta kjör hæstlaunuðu embættismannanna, fór mörgum svo, að þeir sögðu, að það hlyti að vera tóm lygi. Nú er það komið á daginn, að svo er ekki, og af fyrri ræðu hæstv. ráðherra mátti heyra, að honum er þetta mikið kappsmál. Hann fór ýmsum orðum um, hvernig alþýðan liti á málið, og þeim eigi sem réttmætustum. Það er reyndar satt, að þjóðin heimtar ávalt, að embættismennirnir kosti ekki meira en góðu hófi gegnir, enda er hún ekki fær um að bera mikinn óþarfa kostnað. En hins vegar telur hún ekki eftir það sem nauðsynlegt er til þess að landinu sé stjórnað sæmilega og að sit réttarfar sé í góðu lagi. Hitt vill hún ekki, að embættismennirnir séu fleiri en þörf krefur. Og ef þing og stjórn tekur nú til þvert ofan í vilja þjóðarinnar að fjölga embættismönnunum og hækka við þá sem hæst launin hafa, mun fara svo, að óhugur gripi fólkið, það telji sér alls ekki líft í landinu, en taki saman pjönkur sínar og flýi vestur yfir haf.

Hæstv. ráðherra talaði um, að hagur bænda og búalýðs Stæði nú með miklum blóma, afurðir þeirra væru í svo háu Verði. En það verður að teljast eins og hvert annað happ, sem ekki er að vita, hvað lengi stendur. Þó að t. d. eftirspurnin eftir ullinni sé mikil í ár, og hún þess vegna í háu verði, er alls ekki víst að svo verði að ári. Og þó að hagur bænda og sjómanna fari batnandi, er þess full þörf. Svo mikill munur er á kjörum þeirra og embættismannanna, að það er ekki saman berandi. Það væri gaman ef einhver embættismaðurinn hér í Reykjavík tæki sig til og ferðaðist um landið, liti inn í hvert kot, aðgætti þau húsgögn og það viðurværi, sem fólkið Verður að gera sér að góðu, og skoðaði svo reikningana hjá kaupmanninum við árslokin, og yfir höfuð setti sig sem bezt inn í allan hag alþýðunnar, og bæri það saman við líf embættsamanna hér í Reykjavik, þá skil eg ekki í öðru en hann fyndi, að munurinn væri mikill, og kjör alþýðu yfirleitt ekki öfundsverð.

Það er auðvitað sjálfsagt, að alþýða manna má ekki gera eins háar kröfur og þeir sem hærra eru settir; en þá verða embættismennirnir líka að sýna einhvern lit á að sætta sig Við þau miður glæsilegu kjör, sem þetta fátæka land hefir að bjóða.

Ef hækkunin, sem þetta frumv. hefir í för með sér, nemur 85 þús. króna, er það sama sem renta af 600–700 þús. kr. Eg sé ekki, að landssjóður sé þeim efnum búinn, að hann geti bætt þessu á sig, því að skattana er naumast gerlegt að hækka.

Ég get því ekki séð, að frumv. sé svo nauðsynlegt, að vert sé að láta það fara lengra. Þó að hitt geti verið, að hækka þurfi við þá sem verst eru launaðir, svo sem kennararnir við mentaskólann, þá má gera það í fjárlögum. Eg held það væri því réttast að láta frv. detta sem fyrst úr sögunni, svo það eyði ekki um of inum dýrmæta tíma þingsins, en stjórnin undirbyggi síðar skapleg launalög handa þeim sem verst eru settir.

Eg get ekki séð, að málið græði neitt á því að fara í nefnd, því að eg vona að það hafi ekki svo mikið fylgi, að það gangi gegn um þessa deild.