07.08.1913
Neðri deild: 28. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 831 í C-deild Alþingistíðinda. (656)

91. mál, kornforðabúr til skepnufóðurs

Pétur Jónsson:

Flutningam. þessa frumvarps hafa komið fram með br.till. við það á þskj. 285. Það eru ekki efnisbreytingar, heldur að eins lítilfjörlegar orðabreytingar til skýringar og vona eg að þær verði frekar til að bæta frumvarpið, en hitt.

Aftur á móti er komin fram viðaukatillaga á þgskj. 308, sem mundi hafa í för með sér mikla og stórkostlega breytingu á lögunum, þar sem farið er fram á það, að skylda hvern hrepp á landinu til þess, að gera kornforðasamþykt. Það hefir reyndar komið til orða fyrri, að setja slík ákvæði inn í forðabúralögin, en við hikuðum við að setja þau þar. Það er vafi á því, hvort menn ná betur tilgangi sínum í slíkum málum með valdboði og þvingun, en með uppörvun og tilhliðrun. Okkur hefir þótt sá vafi svo mikill, að við vildum ekki ráðast í meira en uppövunaraðferðina. Samt er þetta svo vagið, að ekki er víst að rétt sé að hrinda því frá sér umhugsunarlaust, en eg get ekki séð að háttv. þingmenn geti áttað sig á því nú í svip við þessa umr. Það er því ekki um annað að gera, ef að á að sinna þessu, en að fresta umr., og jafnframt vísa því til nefndar.

Eg skal benda á, að þó að gert væri að skyldu að stofna kornforðabúr í hverjum hreppi, þá er eg hræddur um að þess háttar lagaákvæði yrði alt annað en heppilegt, að minsta kosti eins og það er orðað í greininni á þgskj 308. Það er marga að gæta þegar á að stofna kornforðabúr. Nafnið eitt er ekki nægilegt. Það er hægt að gefa skýrslur og reikninga um kornforðabúr, án þess að það sé nokkurt kornforðabúr í raun og veru. Skýrslurnar gefa enga tryggingu fyrir því að nægilegur kornforði sé fyrir hendi, á þeim tíma sem til hans þyrfti að kalla til þess að bjarga búpeningi frá voða. Í fyrsta lagi getur það komið fyrir, að kornforðinn sé útistandandi, þegar á honum þarf að halda. Og ennfremur, að þótt hann kæmi inn einu sinni á ári, getur það átt sér stað, að skuldunautarnir skrapi saman korni af heimilisforða sínum, til þess að greiða með skuldina og fái það svo lánað aftur sama daginn eða daginn á eftir. Með þessu móti væri þetta enginn forði. Ef nokkuð á að vera hægt að treysta á forðabúrin, þurfa nákvæmar reglur að vera um þau, og stjórn þeirra að vera góð.

Í öðru lagi getur það átt sér stað, að sveitamenn setji hreint og beint á forðabúrin. Þess vegna hefir því verið haldið fram, að forðabúrum þyrfti að fylgja heyásetningsskoðun: En vegna þess að lögin um heyásetningsskoðanir eru ekki miðuð við þetta, þyrfti að breyta þeim í sambandi við slík skylduforðabúr. Samkvæmt þessu þarf nefnd að fjalla um málið. Vil eg því gera það að tillögu minni að umræðunni verði frestað og málinu vísað til landbúnaðarnefndarinnar.