07.07.1913
Neðri deild: 5. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í C-deild Alþingistíðinda. (67)

15. mál, laun íslenskra embættismanna

Magnús Kristjánsson:

Það er ekki mín meining með því að standa upp, að leggja þessu frv. liðsyrði að svo komnu. Mín meining með því er að láta í ljós undrun mína yfir aumum þeim ræðum, sem fram eru komnar í þessu máli.

Eg get ekki séð að ástæða sé til að áfella stjórnina fyrir að koma fram með þetta frv.

Embættismennirnir sjálfir hafa gefið ástæðu til þess að málið er fram komið, með því að snúa sér til stjórnarinnar sem ins eina rétta málsaðila til að vera milliliður milli þeirra og þingsins.

Það kemur annars hálfundarlega fyrir, að allar þessar vandlætingar koma fram á þann hátt, sem raun er á, frá þeim. mönnum, sem öllum þykjast frjálslyndari. Með þessu vilja þeir svifta embættismennina þeim rétti, sem þeir hafa, til að snúa sér með vankvæði sín til þingsins. Það væri algerlega rangt, að fella málið frá nefnd, því að eg fæ ekki betur séð, hvernig sem með frv. fer, en að það hljóti að verða til gagns á sínum tíma, að um það verði fjallað í nefnd. Nefnd, sem kosin yrði í málið, myndi koma fram með einhverjar þær bendingar, sem að liði yrgu seinna. Eg er sannfærður um að þessir menn, sem flytja hér langar ræður á móti þessu frumvarpi og vilja láta fella það nú við 1. umr. tímans vegna, eru ekki ævinlega svo sparir á tíma þinsins.

Það væri að misbjóða þeim embættismönnum, sem hér eiga hlut að, og ósæmilegt í alla staði að skera málið niður nú á þessu stigi.

Ég vill ekki fara nákvæmlega út í einstök atriði frumvarpsins, en benda skal eg á það, að þegar verið er að tala um, hver áhrif þetta hafi á fjárhag landsins, þá líta menn að eins á aðra hliðina.

Það er sagt, að farið sé fram á að hækka laun landritara. Þetta er ekki rétt. Það er þvert á móti farið fram á að lækka þau. Þegar byrjunarlaunin eru lækkuð um. 1000 kr. á ári, en hækka svo um 300 kr. á hverjum 3 árum, þá fæ eg ekki séð að hækkunin nemi meira en 10% af lækkuninni fyrst í stað.

Eg tek það fram enn á ný, að eg álit það og ósanngjart að bægja málinu frá nefnd.