07.08.1913
Neðri deild: 28. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 842 í C-deild Alþingistíðinda. (673)

100. mál, sölubann á tóbaki til barna og unglinga

Flutningsm. (Sigurður Sigurðsson):

Það er síður en svo, að eg hafi nokkuð á móti, að málið sé sett í nefnd. Get eg felt mig við það í þeirri von, að þeir, sem láta sér ant um það, geri það svo úr garði, að það verði að sem beztum notum.

Háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. Ól.) gat þess, að eins og frumvarpið væri samið, gæti það að engu gagni komið. Held eg að fyrir honum hafi vakað, að tilganginum mætti ná á annan hátt. En annara var aðalástæðan gegn frumv. einkum hjá þeim háttv. þm. Dal. (B. J.) og háttv. þm. Snæf. (H. St.), að ekki væri hægt að sjá það á unglingi, hversu gamall hann væri.

Það er að vísu rétt, að eigi er hægt að sjá það á unglingi, hvort hann er 15 eða 16 ára; en í flestum tilfellum mun vera hægt að sjá það upp á hár, hvort hann er fyrir innan fermingu. — Það mætti líka benda á, að hægt væri að heimta af unglingum að þeir hefðu í vasanum lögregluskírteini, er sýndi aldur þeirra. En annars finst mér ástæða þessi vera mjög veigalítil. Það getur vel verið, að það komi sér vel fyrir þá sem latir eru, að geta sent unglinga eftir tóbaki handa sér; en eg álít að það sé ósiður að láta unglinga kaupa fyrir sig tóbak og veiti ilt fyrirdæmi:

Háttv. 1. þm. Dal. (B. J.) sagðist vilja ráða því sjálfur, hvernig hann ali upp börn sin Þetta er mjög auðvelt að segja, en í reyndinni vill það fara svo, að börnin verða fyrir utanaðkomandi áhrifum, sem foreldrarnir geta ekki ráðið við. Sérstaklega á það sér stað í bæjunum, þar sem börnin svo að segja eru hrifsuð undan umsjón foreldranna. Það er því fjarstæða að imynda sér að foreldrarnir geti ráðið börnunum, sízt í stórbæjum. Enda er það kunnugt, að börnin fara á bak við foreldra sína í þessum efnum.

Annars vil eg styðja að málið sé sett í nefnd og er þakklátur hverjum manni, sem leggur því liðsyrði og vill stuðla til að tilganginum verði náð. En eg býst ekki við því, að þessi lög fremur en önnur verði alfullkomin. Við vitum að þegar verið er að reyna að koma einhverju góðu til leiðar, leitast menn við að komast svo langt, sem hægt er, þó ekki sé auðið að ná algerðri fullkomnun. Og má nefna í þessu sambandi sem dæmi, að við getum ekki brúað allar ár landsins á einu ári. Yfir höfuð getum við ekki í einu komið öllu því til leiðar, sem þjóðinni er til góða, en við eigum að stefna að því að það takmark náist smám saman.