07.08.1913
Neðri deild: 28. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 846 í C-deild Alþingistíðinda. (677)

100. mál, sölubann á tóbaki til barna og unglinga

Bjarni Jónsson:

Mér þykir mjög leiðinlegt að þurfa að eyða fleiri orðum að þessu frumv, En orð háttv. 2. þm. G.-g. (gr. D.) gera það að Verkum, að eg get ekki þagað.

Hann mintist á þessa setningu eftir Horaz skáld: »Est quadam prodire tenus, si non datur ultra«. Þetta er rétt, setningin stendur hjá Hórazi og hitt er líka rétt, að ef þessi lög fengju framgang, þá yrðu þau byrjunin til þess að gera Alþingi hlægilegt. Svo langt má komast með þeim.

Sami hv. þm. blandaði saman tvennu ólíku, þar sem hann talaði um að banna að selja tóbak mönnum á vissum aldri, og annað sem hann benti til. Það er ekki sama sem að glæpur sé framinn, að selja mönnum tóbak. Að selja eitthvað er aldrei glæpur, nema þá að það sé gert með svikum. Annars virðist mér algerlega ómögulegt að leggja það haft á verzlunarmenn, sem hér er um að ræða; þeir geta ómögulega vitað, hverjum þeir megi selja og hverjum ekki. Þroski manna, bæði pilta og stúlkna, er svo mismunandi, að ómögulegt er að átta sig á því hve gamall þessi og þessi er. Ein leið væri þó til þess að fá þetta; og hún er sú, að gera öllum að skyldu að hafa skírnarvottorð sitt saumað á bakið á sér.

Háttv. sami þm. vitnaði til þess, að nú væri gengið ríkara eftir því og meiri gát höfð á því að börn reyktu ekki en var í hans ungdæmi. Eg held að það sé ekki. T. d. man eg eftir því, að í mínu ungdæmi var stúlkukrakki kaghýddur fyrir að reykja.

Mér virðist sem sagt ekkert vit í þessu frumv. Ekkert vit í leggja það uppeldi barna, sem foreldrarnir eiga að sjá um, á kaupmennina, og mér virðist engin von til að þessi lög næði tilgangi sínum, þó að þau yrðu að lögum. (Kristinn Daníelsson: Est quadam prodire tenus, si non datur ultra). Já, Við kæmustum það áfram, að við gerðum Alþingi hlægilegt. Annars skal eg benda háttv. þm., sem alt af er með þessa setningu hér, á, að það er til önnur setning eftir Horaz, sem hljóðar svo: »Humano capiti cervicem pictor equinam jungere si velit et varias inducere plumas . . . etc. risum teneatis amici !«, sem þýðir, að ef málari setti mannshöfuð á merarháls o. s. frv., hvort mundu þá ekki vinirnir hlæja. Sama konar óskapnaður yrði þessi lagasmið og mun fara líkt um þetta frumv., að menn geri ekki annað en að hlæja að því.